Reyðarfjörður breytir um svip og verður að Fortitude – Myndir

rfj fortitude 0003 webÁsýnd Reyðarfjarðar hefur tekið miklum umbreytingum að undanförnu út af kvikmyndatökum á bresku spennuþáttunum Fortitude sem þar fara fram.

Mest áberandi breytingin eru fánar með bæjarmerki Fortitude og norskir fánar sem blakta við höfnina á Reyðarfirði.

Miðbærinn er það svæði sem helst hefur breytt um svip. Búið er að byggja utan á Tærgesen-húsið og andspænis því hefur verslun N1 verið breytt í „Snow & Ice" sem virðist selja allt það helsta sem þarf til að komast af á norðurhjara veraldar.

Jólaljósunum hefur verið haldið á kirkjunni og á enda gömlu fóðurblöndunarstöðvarinnar hefur verið máluð mynd af manni að veiða ísbjörn.

Gamla frystihúsið er hins vegar aðal bækistöð tökuliðsins og hefur verið breytt verulega að innan.

Skilti á Molanum voru tekin niður, til dæmis merki ÁTVR. Völdum götum er lokað á meðan tökum stendur eða umferð takmörkuð. Þá er snjómokstri á ákveðnum svæðum hagað eftir þörfum kvikmyndaliðsins sem nota þarf hann við tökur.

Sum húsanna hafa verið endurbyggð í myndveri úti í Englandi af mikilli nákvæmni. Framleiðslukostnaður þáttanna er alls talinn tæpur milljarður króna. Við tökurnar vinna um 120 manns, þar af 70 Íslendingar og 30 leikarar. Þá koma fram um 200 aukaleikarar, flestir af Austurlandi.

Nánari upplýsingar um tökurnar og takmörkun á umferð er að finna á vef Fjarðabyggðar.

frystihusid webrfj fortitude 0008 webrfj fortitude 0011 webrfj fortitude 0014 webrfj fortitude 0016 webrfj fortitude 0019 web
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar