Austfirðingar sópuðu að sér verðlaunum í Lego-keppni: Aðalverðlaunin í Brúarás

bruaras sigurvegararLiðið 0% englar frá Brúarásskóla á Fljótsdalshéraði fór með sigur af hólmi í tækni- og hönnunarkeppni grunnskólanemenda sem haldin var í Reykjavík síðastliðinn laugardag. Fimm verðlaun af sjö féllu í skaut austfirskra skóla.

Liðið úr Brúarási var skipað sjö stúlkum, þeim Láru Snædal Boyce, Fríðu Pálmars Lárusdóttur Snædal, Æsu Katrín Sigmundsdóttur, Söru Káradóttur, Guðnýju Höllu Sóllilju Björnsdóttur, Heiðrúnu Önnu Eyjólfsdóttur og Guðnýju Eddu Guðmundsdóttur.

Keppnin hófst klukkan níu að morgni laugardags á því að liðin spreyttu sig á þraut tengdri þema keppninnar, sem í ár var náttúruöfl. Þau áttu að forrita vélmenni úr tölvustýrðu LEGO-i til að leysa þrautina.

Enn fremur gerðu keppendur vísindalega rannsókn á ákveðnu efni sem einnig var tengt þemanu og jafnframt héldu liðin ítarlega dagbók um undirbúning fyrir keppnina. Þá fluttu liðin skemmtiatriði á sviðinu í stóra sal Háskólabíós og að lokum þurftu þau að gera grein fyrir því hvernig þau forrituðu vélmenni sitt.

0% englarnir fengu bikar með sér heim en þær áunnu sér einnig þátttökurétt á Evrópumóti First Lego League sem haldið verður á Spáni í lok maí. Englarnir hlutu einnig verðlaun fyrir besta lausn í vélmennakappleik en Brúarásskóli fékk einnig verðlaun í keppninni í fyrra.

Fleiri austfirsk lið fengu verðlaun. Liðið Krapaflóð frá Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar fékk viðurkenningu fyrir bestu liðsheildina, Hnjúkarnir frá Grunnakóla Hornafjarðar fyrir bestu dagbókina og El Grilló frá Seyðisfjarðarskóla fyrir besta skemmtiatriðið. Liðið gerði sér lítið fyrir, stofnaði hljómsveit og flutti lag Of Monsters & Men, Little Talks.

Þá gekk á ýmsu í ferðalagi liðsins. Rútan sem lagði af stað á bilaði strax á Jökuldal. Sextán manna hópurinn fékk í staðinn fimmtíu manna rútu svo vel rúmt var um hann. Þá var Fjarðarheiðin ófær þegar komið var til baka á sunnudagskvöldi þannig hópurinn þurfti að gista á Héraði daginn eftir.

Alls voru þrettán lið víða af landinu skráð í keppnina að þessu sinni, eða um 140 grunnskólanemar á aldrinum 10-15 ára.

Mynd af Brúarásskóla: Háskóli Íslands

sfk1sfk2sfk3sfk4
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar