Hvernig líður okkur? Uppistand og námskeið um geðorðin tíu

hedinn unnsteinsson skorinnEru þau eitthvað að virka þessi 10 geðorð á ísskápnum? Hvernig nýtast þau? Geta forvarnir í geðrækt haft áhrif á atvinnuþátttöku? 6. og 7. febrúar nk. munu Héðinn Unnsteinsson, frumkvöðull Geðræktar og Elín Ebba Ásmundsdóttir iðjuþjálfi verða með uppstand um geðorðin 10 og námskeið um geðrækt og atvinnuþátttöku. Báðir viðburðir eru ókeypis og öllum opnir.

Fimmtudagskvöldið 6. febrúar kl. 20:00 á Hótel Héraði á Egilsstöðum verða Héðinn og Ebba með uppistand um geðorðin 10, vellíðan og hamingju. Geðorðin 10 eru byggð á niðurstöðum rannsókna um hvað einkennir þá sem búa við velgengni og vellíðan í lífinu. Vellíðan okkar byggir að á því að hugsa vel um líkama og sál. Geðrækt helst í hendur við ræktun líkamans. Geðrækt er ungt hugtak sem leitast við að gera fólk meðvitað um mikilvægi eigin hugsunar og annarra áhrifaþátta geðheilbrigðis. Hvað getur aukið meðvitund okkar um eigin geðheilsu og hjálpað okkur að lifa í sátt og jafnvægi?

Föstudaginn 7. febrúar í húsakynnum Austurbrúar að Vonarlandi á Egilsstöðum verður sjónum beint að geðrækt og atvinnuþátttöku. Námskeiðið verður byggt upp á erindum, dæmum, verklegum æfingum og umræðum. Hægt er að taka þátt í öðrum hvorum hluta námskeiðsins eða vera með allan daginn. Frá kl. 9-12 verður unnið með geðrækt frá mismunandi sjónarhornum með áherslu á forvarnir, eftir hádegi frá kl. 13-16 er röðin komin að atvinnumálum öryrkja og hvaða úrræði eru til að efla samfélagsþátttöku fólks.

Fyrirlesararnir eru öllu áhugafólki um geðrækt að góðu kunn. Héðinn Unnsteinsson er ráðgjafi i geðheilbrigðismálum, frumkvöðull Geðræktar og fyrrverandi sérfræðingur hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni (WHO). Elín Ebba Ásmundsdóttir er framkvæmdastjóri Hlutverkaseturs og dósent við Háskólann á Akureyri. Þau eru bæði þekkt fyrir að vera með skemmtilega og fróðlega fyrirlestra sem hreyfa við fólki.

Uppstandið og námskeiðið er ætlað öllu áhugafóki um geðrækt og aðgangur er sem fyrr segir ókeypis. Hægt er að skrá sig í gegnum vefinn, austurbru.is eða með því að hringja í síma 4703800. Báðir þessir viðburðir eru í boði félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs, HSA, AFLs, Vinnumálastofnunar, STARFA og Austurbrúar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar