Tíu ár frá líkfundinum í Neskaupstað: Tilviljun að líkið fannst

likfundur nesk 2004Tíu ár er í dag liðin síðan kafari fann lík Litháans Vaidas Jucevicius við netagerðarbryggjuna í Neskaupstað. Í fyrstu var talið að um kaldrifjað morð hefði verið að ræða og nokkurn tíma tókst að komast á rétta slóð.

Það var að morgni miðvikudagsins 11. febrúar sem Þorgeir Jónsson, kafari sem vann að viðgerð á hafnarkanti netagerðarbryggjunnar fann lík af karlmanni vafið í plastdúk og utan um það járnkeðja til að þyngja það.

Í fyrstu beindist rannsóknin að því hvort um væri að ræða norskan sjómann eða erlendan starfsmann frá Kárahnjúkum. Athyglin beindist að norsku loðnuveiðiskipi sem var á Norðfirði og manntal var gert á Kárahnjúkum en þar vantaði engan.

Áverkar voru á líkinu eftir eggvopn og því talið að um kaldrifjað morð hefði verið að rifja. Rannsóknin tók þó kúvendingu í rétta átt eftir krufninguna þegar fíkniefni fundust innvortis og ljóst varð að áverkarnir voru ekki banameinið. Rannsóknin barst víða og haft var samband við norsku lögregluna og Interpol til að reyna bera kennsl á þann látna.

Á mánudegi lýsti lögreglan eftir fjórum mönnum, tveimur Íslendingum og tveimur Litháum. Þrír þeirra gáfu sig fram en sögðust ekki kannast við þann þriðja.

Rannsóknin var gagnrýnd, of mikill tími þótti hafa farið í að elta rangar slóðir í byrjun og lögreglan þótti ekki standa sig í upplýsingagjöf til fjölmiðla. Fyrsti blaðamannafundurinn var haldinn viku eftir að líkið fannst. Þar var dánarorsökin staðfest og sömuleiðis að hinn látni væri 27 ára gamall Lithái, Vaidas Jucevicius. Einnig var greint frá því að hann hefði verið með 400 grömm af fíkniefnum innvortis.

Tveimur dögum síðar voru þremenningarnir Grétar Sigurðsson, Jónas Ingi Ragnarsson og Tomas Malakausas handteknir. Grétar játaði eftir nokkra daga í gæsluvarðhaldi og smám saman fór málið að skýrast.

Vaidas kom til landsins að kvöldi 2. febrúar. Hann varð fljótt mikið veikur og útveguðu þremenningarnir honum lyf til að lina þjáningarnar. Eftir að hann lést flaug Grétar austur á land og fór til fjölskyldu sinnar í Neskaupstað en Jónas Ingi og Tomas komu á eftir á bílaleigubíl með lík Vaidasar pakkað inn í teppi í skottinu.

Ferðalagið var farið um helgi í vonskuveðri og urðu þeir meðal annars veðurtepptir á Djúpavogi. Í yfirheyrslum sögðust Jónas og Tomas hafa farið í bíltúr til að skoða Gullfoss, Geysi og Skaftafell og ákveðið að heimsækja Grétar í Neskaupstað fyrst þeir voru komnir þetta austarlega.

Í játningum þeirra kom fram að þeir hefðu ætlað að grafa líkið í jörðu en það ekki verið hægt út af frosti. Um miðnætti sunnudaginn 8. febrúar hefðu þeir losað sig við líkið af bryggjunni. Tilviljun réði því að það fannst svo fljótt en bryggjan skemmdist í óveðrinu.

Tveimur vikum eftir handtökuna játaði Tomas. Jónas Ingi neitaði sök og sagðist ekkert hafa vitað af Vaidasi í skottinu. Dómari taldi framburð hans síðar farsakenndan.

Þremenningarnir voru síðan fundnir sekir um fíkniefnabrot, fyrir að koma ekki manni í lífshættu til hjálpar og fyrir illa meðferð á líki. Þeir voru allir dæmdir til hámarksrefsingar, tveggja og hálfs árs fangelsis.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar