Forsetahjónin heimsækja Fljótsdalshérað og Seyðisfjörð

forseti faskrudsfjordur 0036 webForseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú munu heimsækja Egilsstaði og nágrenni á morgun, föstudaginn 14. febrúar og Seyðisfjörð laugardaginn 15. febrúar.

Heimsókn forsetahjóna hefst í leikskólanum Tjarnarskógi klukkan 10:00 og þaðan verður haldið að Egilsstaðaskóla og Tónlistarskólann á Egilsstöðum þar sem forseti mun ávarpa nemendur og hlýða á dagskrá.

Frá Egilsstaðaskóla liggur leiðin í Menntaskólann á Egilsstöðum. Eftir kynningu á skólastarfinu mun forseti ávarpa nemendur á sal skólans, svara fyrirspurnum og snæða í kjölfarið hádegisverð með nemendum og starfsfólki í mötuneyti skólans.

Eftir hádegi munu forsetahjón fyrst heimsækja Hugvang kl. 14:00 en Hugvangur er samheiti nokkurra fyrirtækja í kynningar-, tölvu- og hugbúnaðargeiranum sem mest starfa erlendis en hafa höfuðstöðvar á Egilsstöðum.

Frá Hugvangi halda forsetahjónin í Egilsstaðabúið og kynnast starfsemi þess. Þaðan liggur leiðin að Hitaveitu Egilsstaða og Fella við Urriðavatn og loks í Sláturhúsið þar sem listamenn hafa starfsstöðvar og fram fer sýningarhald og tónleikar.

Að kvöldi föstudagsins 14. febrúar munu forsetahjón snæða kvöldverð í boði sveitarstjórnar Fljótsdalshéraðs á Hallormsstað.

Laugardaginn 15. febrúar munu forsetahjónin fara til Seyðisfjarðar. Þar afhendir forsetafrúin Eyrarrósina, árleg verðlaun sem veitt eru fyrir framúrskarandi menningarstarf á landsbyggðinni.

Eyrarrósin var fyrst veitt árið 2005 og er byggð á samstarfi Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Flugfélags Íslands. Dorrit Moussaieff forsetafrú er verndari Eyrarrósarinnar. Athöfnin hefst kl. 13:00 og fer fram í Skaftfelli á Seyðisfirði, en Skaftfell hlaut Eyrarrósina á síðasta ári.

Á Seyðisfirði munu forsetahjónin einnig hitta nemendur Grunnskólans á Seyðisfirði að morgni laugardagsins 15. febrúar, snæða hádegisverð í boði bæjarstjórnar og taka kl. 15:00 þátt í lokahófi „Hnallþóru í sólinni", 15 ára afmælissýningar Skaftafells.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar