Austfirðingur í sturlaðri stemmingu í Seattle-borg eftir Super Bowl sigurinn

erlingur thorarinsson seattle 0001 webErlingur Þórarinsson, starfsmaður AX North, segir stemminguna í Seattle-borg í Bandaríkjunum hafa verið „sturlaða" eftir sigur borgarliðsins Seahawks í úrslitaleik ameríska fótboltans fyrir skemmstu. Erlingur var staddur í borginni dagana í kringum leikinn sem kenndur er við Ofurskálina eða Super Bowl.

„Það voru alls staðar auglýsingar fyrir leikinn. Í öllum búðum var verið að selja eitthvað tengt leiknum. Eitt háhýsið var með framhlið sem var öll úr gleri og hana var búið að fóðra með mynd af einum leikmanninum."

Erlingur kom sér fyrir á öldurhúsið sunnudagskvöldið sem leikurinn fór fram og fylgdist með Seattle Seahawks bursta Denver Broncos 43-8. „Við þurftum að vera mættir þremur tímum fyrir leik til að fá sæti og þannig var það á öllum veitingastöðum, kaffihúsum og skemmtistöðum í borginni."

Hann segir töluna tólf hafa verið áberandi í borginni dagana fyrir leik en hún vísar til tólfta mannsins sem eru stuðningsmenn liðsins. Mikið hafi verið rýnt í talnaspekina, fyrsta snertimarkið hafi verið skorað eftir tólf sekúndur, það næsta tólf mínútum fyrir hálfleik og það fyrsta í seinni hálfleik eftir tólf sekúndur. Stigin 43 voru líka lesin eftir stærðfræðinni: 4x3=12.

Það var síðan á miðvikudegi klukkan 12:12 sem formlega var tekið á móti liðinu. Erlingur segist ekki hafa farið til að fylgjast með móttökunni. „Okkur var lagt frá því að fara niður í miðbæ, að minnsta kosti ekki keyrandi."

Hann segir suma stuðningsmenn hafa lagt mikið á sig til að fagna heimkomu liðsins. „Það var fólk byrjað að mæta klukkan sjö um morguninn í skítakulda, sjö stiga gaddi. Fólk tók börnin sín úr skóla og það var allur dagurinn undirlagður í þetta."

Erlingur var staddur í borginni á ráðstefnu hjá Microsoft þar sem kynnt var ný útgáfa viðskiptalausnarinnar Dynamics AX en hann er starfsmaður hugbúnaðarfyrirtækisins AX North.

Hann segir að ráðstefnan hafi verið „mjög lituð" af sigri Seahawks. „Í næstum hverjum einasta fyrirlestri var byrjað á að tala um „við unnum" og einn fyrirlesarinn mætti í búningi og byrjaði með myndbandskynningu um liðið með háværri tónlist."

Erlingur segist annars enginn sérstakur aðdáandi ameríska fótboltans. Hann hafi hins vegar gaman af úrslitaleiknum sem er mikið sjónarspil. „Þetta er ekki fyrsti Super Bowl-leikurinn sem ég horfi á en ég fylgist ekki með deildinni frá degi til dags."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar