Bauð Dorrit í fjós á Valentínusardaginn: Stundum held ég að hún elski beljurnar meira en mig - Myndir
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú hafa gert víðreist í heimsókn sinni á Fljótsdalshéraði í dag. Í morgun heimsóttu þau skólastofnanir en kynntu sér atvinnu- og menningarlíf eftir hádegið.Meðal annars var komið við á Egilsstaðabúinu hjá Gunnari Jónssyni og Vigdísi Sveinbjörnsdóttir og skroppið í fjósið þar. Þar tók á móti þeim kálfur sem fæddist í nótt og fékk því nafnið Dorrit en hann fangaði hug og hjarta nöfnu sinnar.
Forsetafrúin gældi við kálfinn og fékk að gefa honum mjólk enda taldi hún hann vera svangan. Í fyrirspurnartíma í Menntaskólanum á Egilsstöðum fyrr um daginn hafði Ólafur Ragnar gefið það til kynna að Dorrit hlakkaði mjög til að komast í fjósið.
Þar var hann spurður að því hvort hann ætlaði að gera eitthvað fyrir frúna í tilefni Valentínusardagsins, sem er í dag.
„Ég velti fyrir mér hvað ég ætti að gera fyrri Dorrit og ákvað að bjóða henni í fjósið. Ég veit það er ekki rómantískt en stundum held ég að hún elski beljurnar meira en mig. Henni finnst mjög gaman að koma í fjós."
Ólafur og Dorrit smökkuðu framleiðslu frá býlinu og lýstu mikilli hrifningu af ostunum sem þau hefðu hug á að panta til Bessastaða.
Ferðin eftir hádegið hófst í Hugvangi sem er þar sem skrifstofu Kaupfélags Héraðsbúa voru síðast. Þar er nú heimili átta fyrirtækja í upplýsingatækni en þeirra stærst eru AX North og Rational Network.
Einnig var komið við hjá Hitaveitu Egilsstaða og Fella við Urriðavatn og litið við í Sláturhúsinu sem í dag er menningarmiðstöð. Þar voru meðal annars skoðaðar vinnustofur listamanna eins og Ingunnar Þráinsdóttur og Steinrúnar Óttu Stefánsdóttur en Dorrit lýsti mikilli hrifningu á verkum þeirra.
Forsetahjónin snæða kvöldverð með bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs á Hallormsstað í kvöld en halda í fyrramálið til Seyðisfjarðar þar sem til stendur að afhenda menningarverðlaunin Eyrarrósina.