Forsetinn í þæfingsfærð á Fjarðarheiði: Áminning fyrir gamlan Vestfirðing
Um klukkustund tók fyrir Forseta Íslands, ásamt fylgdarliði, að komast tæplega 30 km leið yfir Fjarðarheiði frá Egilsstöðum til Seyðisfjarðar í dag. Nokkrir aðrir bílar voru með í för enda verður Eyrarrósin afhent á Seyðisfirði í dag.
Nokkrir bílar lögðu upp frá Egilsstöðum tuttugu mínútur fyrir tíu í morgun og fór snjóruðningstæki fyrir þeim megnið af leiðinni. Leiðindaveður hefur verið á Fjarðarheiði, gengið á með éljum og við þær aðstæður verður fljótt illfært á heiðinni.
„Þetta hafðist!“ sagði Ólafur Ragnar þegar komið var á áfangastað á Seyðisfirði. Hann heimsótti í morgun Grunnskólann á Seyðisfirði og Íþróttaskóla Hugins, þar sem seyðfirsk börn og ungmenni tóku vel á móti þeim hjónum báðum.
„Þetta var mikið fannfergi," sagði Ólafur. Mikill laus snjór var á heiðinni og það hvessti á meðal forsetinn og hans fólk fór yfir þannig að skyggni varð lítið sem ekkert.
"Þetta var ágæt áminning fyrir gamlan Vestfirðing.“
Eftir hádegið mun Dorrit Moussaief forsetafrú afhenda Eyrrarósina, verðlaun sem veitt eru fyrir framúrskarandi menningarviðburði á landsbyggðinni.
Þá munu forsetahjónin einnig heimsækja menningarmiðstöðina Skaftfell. Þar munu þau dæma sérstaka hnallþórukeppni sem fram fer í tilefni af lokum sýningar á verkum Dieters Roth undir yfirskriftinni „Hnallþóra í sólinni“.
Samkvæmt upplýsingum Austurfréttar mun Vegagerðin sjá til þess að Fjarðarheiði verði opin þannig að forsetinn og aðrir gestir Eyrarrósarinnar komist aftur yfir heiðina að þessum viðburðum loknum.