Eyrarrósin var mikið lán fyrir Skaftfell

tinna gudmunds skaftfell feb14Tinna Guðmundsdóttir, forstöðukona menningarmiðstöðvarinnar Skaftfells á Seyðisfirði, segir það hafa skipt miklu máli fyrir miðstöðina að hljóta viðurkenninguna Eyrarrósina í fyrra. Bæjarstjóri Seyðisfjarðar segir þá staðreynd að rósin hafi tvisvar komið þangað sanna hve menningarstarf sé mikils metið í bænum.

„Um þetta leyti í fyrra stóð ég í Hofi á Akureyri og var vægast sagt í ákveðinn geðshræringu eftir að hafa tekið við Eyrarrósinni fyrir hönd Skaftfells," sagði Tinna í þakkarræðu sinni um helgina þegar Eyrarrósin var afhent nýjum handhafa í Skaftfelli.

Tinna segir viðurkenninguna hafa skipt Skaftfell máli á mörgum sviðum. Í fyrsta lagi hafi hún verið gæðastimpill á starfsemina og þær hugsjónir sem unnið sé eftir við að miðla samtímamyndlist og myndlist almennt á Austurlandi.

Í öðru lagi hafi hún eflt sjálfstraust þeirra sem að miðstöðinni standi. „Að reka faglegt menningarverkefni í fámennum bæ úr alfaraleið er töluverð áskorun. Bæði vegna þess að mörg verk leggjast á fáar hendur en líka því það eru ekki alltaf sömu úrræði í boði varðandi styrktaraðila, tól og tæki og kunnáttu. Á Seyðisfirði er hins vegar mikil jákvæð orka, sérstaklega gagnvart Skaftfelli og því er allt mögulegt."

Tinna, sem þá hafði veitt Skaftfelli forstöðu í um það bil ár, segist hafa verið ein af þeim sem hafi notið góðs af efldu sjálfstrausti. „Þetta var mikið lán fyrir okkur og veitti mér sjálfstraust til að vinna áfram af fullum þunga."

Athyglin hafi meðal annars orðið til þess að betur gekk að afla styrkja. „Við keyrðum áfram á 15 ára afmælissýningu og fræðsluverkefni sem var krefjandi fjáröflunarverkefni því við þurftum að koma nemendunum til Seyðisfjarðar. Þar varð ég vör við að fyrirtækin sem ég talaði við þekktu til Skaftfells meðal annars út af Eyrarrósinni."

Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri, sló á létta strengi og sagði að dagsins hefði verið beðið með nokkurri eftirvæntingu en einnig óvissu þar sem ekki hefði verið öruggt að athöfnin yrði haldin þar vegna færðar á Fjarðarheiði.

Hann sagði mikinn listrænan metnað ríkja í Skaftfelli og starfinu verið sinnt af „elju og ósérhlífni." Listahátíðin LungA hafði áður fengið verðlaunin og því tvö seyðfirsk verkefni fengið Eyrarrósina, sem veitt er fyrir framúrskarandi menningarstarfsemi á starfssvæði Byggðastofnunar. „Það er til marks um að menning og listir eru ríkur hluti af sjálfsmynd staðarins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar