Ólafur Ragnar: Ævintýri hvernig Egilsstaðir hafa vaxið og blómgast – Myndir

forseti egs 0013 webÓlafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir það ævintýri líkast hvernig Egilsstaðir hafi þróast á undanförnum áratugum. Í dag sé þar orðin til umferð erlendra ferðamanna að vetri til sem enginn hefði búist við fyrir fáum árum. Hann mælir með því fyrir áhugasama að prófa að verða forseti.

Ólafur Ragnar og Dorrit Moussaieff, forsetafrú, heimsóttu skólastofnanir á Egilsstöðum á föstudag og svöruðu meðal annars spurningum áhugasamra.

Ólafur Ragnar byrjaði á heimsókn á leikskólann Tjarnarskóg þar sem börnin sungu nokkur lög og fengu að heilsa forsetanum.

Þaðan lá leiðin í Egilsstaðaskóla þar sem nemendur tónlistarskólans sáu um ýmis skemmtiatriði. Börn úr yngstu deild grunnskólans sungu þó lög úr Dýrunum í Hálsaskógi en verkið verður sett upp í vikunni á árshátíð skólans.

Forsetinn var meðal annars spurður út í hvort hann hefði komið á limmósíu. Ólafur Ragnar svaraði því til að það gerði hann bara í útlöndum, slíkir bílar væru hins vegar til skemmtunar hér. Þau hefðu hins vegar bara leigt Toyota-jeppa í austurferðina.

Dumbledore líður hvergi betur

Ólafur Ragnar ávarpaði síðan nemendur á eldri stigunum tveimur á sal skólans og svaraði þar spurningum.

Hann sagði frá því að hann hefði hitt Michael Gambon, leikara í Fortitude-þáttunum sem þekktastur er sem Dumbledore skólastjóri í myndunum um Harry Potter, á hótelinu um morguninn „þar sem hann var að borða skyrið sitt" og spurt hvernig honum litist á svæðið um hávetur.

„Hann sagðist hvergi hafa unað sér jafn vel. Þetta var ekki bara kurteisishjal og það voru ekki bara fjöllin sem höfðu þessi áhrif heldur mannfólkið og andinn sem hann skynjaði í byggðarlaginu."

Forsetinn rifjaði upp æskuár sín á Vestfjörðum og sagði það hafa verið dýrmæta reynslu að alast upp á landsbyggðinni. Hann talaði einnig um þau tækifæri sem ungum Íslendingum stæðu til boða í alþjóðasamfélaginu í dag og mikilvægi hreinnar náttúru sem væri alls ekki sjálfgefin hvar sem er.

Forsetinn getur ekki komið sökinni á neinn annan

Ólafur Ragnar svaraði meðal annars spurningu um hvernig honum hefði liðið eftir að hann var kjörinn forseti og sagðist ekki muna eftir að hafa verið spurður að henni fyrr.

„Það þyrmdi yfir mig því ég skynjaði þá trú og ábyrgð sem fólkið sýndi mér en líka því ég gerði mér grein fyrir að líf mitt myndi breytast og halda inn á nýjar brautir þar sem skipti máli að ég stæði mig vel. Auðvitað var ég glaður en ég fann ábyrgð."

Hann sagði að forsetaembættið væri að mörgu leyti snúnara heldur en að vera þingmaður eða ráðherra. „Það er ögrandi því þú verður að standa og falla með þínum ákvörðunum. Ráðherrar tilheyra hópi en forsetinn er einn. Hann getur ekki komið sökinni á neinn annan."

Hann sagðist almennt hafa mjög gaman af því að vera forseti en oft þyrfti að taka „snúnar og erfiðar ákvarðanir." Miklar annir fylgdu einnig embættinu og hann væri að frá morgni til kvölds flesta daga ársins. „Ef þú ert að velta fyrir þér að verða forseti þá mæli ég með því," sagði Ólafur samt.

Dorrit spilar Skálmöld

Ólafur Ragnar var einnig spurður um hvað honum þætti best að borða. „Ef Dorrit væri ekki hérna myndi ég segja gott lambalæri með brúnuðum kartöflum og súkkulaðiköku á eftir en fyrst Dorrit er hér þá segi ég grænmeti og ávextir."

Hann var einnig spurður um hvers vegna forsetahundurinn Sámur væri ekki með í för. Ólafur Ragnar sagði að samkvæmt reglum hefði orðið að skilja hann eftir en Dorrit kallaði eftir atkvæðagreiðslu í salnum þar sem yfirgnæfandi meirihluti lýsti þeirri skoðun sinni að hundurinn hefði átt að vera í föruneytinu.

Dorrit lýsti því einnig yfir að það væri hún sem setti Skálmöld á fóninn á Bessastöðum en Ólafur sagðist hafa séð þá á tónleikum og bætti við að ótrúlegt hvernig nýjar og nýjar íslenskar hljómsveitir næðu árangri á heimsvísu á hverju ári.

Ólafur Ragnar sagði líka að hann hefði ekki áhyggjur af því þótt gert væri grín að sér. „Ég hefði meiri áhyggjur ef ég væri ekki í Spaugstofunni. Ég er búinn að venjast þessu. Ég horfi meira á hvernig menn herma eftir mér," sagði hann og bætti við að það hefði enginn gert betur en Gísli Rúnar Jónsson.

Sá túlkaði Ólaf Ragnar, þá fjármálaráðherra, í eftirminnilegu atriði í áramótaskaupi sem Skattmann. Ólafur Ragnar sagðist hafa haldið að það atriði myndi skaða ímynd hans en komist að allt öðru því samlíkingin við Batman hefði í raun látið hann líta út sem hetju í augum yngstu kynslóðarinnar á eftir.

Þá var Ólafi Ragnar afhentur ormur að gjöf frá nemendum sem smíðaður var af nemendum fjórða bekkjar í Evrópuverkefni.

Sakaði fjölmiðla um að gefa ekki rétta mynd af heimsókninni til Sochi

Þaðan lá leiðin yfir í Menntaskólann þar sem meðal annars var komið við í kennslustund áður en spurningum nemenda var svarað á sal. Sumar spurningarnar voru þær sömu og fyrr um morguninn en aðrar snúnari. Hann var til dæmis spurður út í ferð sína á ólympíuleikana í Sochi og samskipti við Vladimir Pútín Rússlandsforseta en leikarnir hafa verið umdeildir vegna mannréttindabrota rússneskra stjórnvalda á samkynhneigðum.

Ólafur Ragnar sagði að ferðin til Sochi hefði verið „að öllu leyti mjög fróðleg. Hún er ákveðin lexía um hvernig fjölmiðlar birta ekki alltaf rétta mynd af hlutunum. Það má segja margt um Rússland og fólkið þar. Ég fór í boði Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Alþjóðaólympíunefndarinnar en ekki Rússlands. Fjölmiðlar verða að átta sig á því.

Ég get ekki dæmt um hvernig manneskja Pútin er en hann er mjög faglegur og tekur á þeim málum sem maður leggur fyrir hann. Hann tekur opna umræðu eins og flestir leiðtogar. Á fundum þjóðarleiðtoga skiptir ekki máli hvort þú talar fyrir 300.000 manns eða þrjár milljónir. Það sem skiptir máli er að þú hafir eitthvað að segja."

Hann sagði upplifunina hafa verið einstaka að heimsækja Kákasussvæðið. „Þetta eru ótrúlegir fjallgarðar. Þorpin eru í yfir tvö þúsund metra hæð. Aðstaðan fyrir íþróttafólkið er líka ótrúleg. Aðstaðan sem þarna hefur verið sköpuð er meðal annars gerð með það fyrir augum að fá heiminn til að njóta svæðisins sem var lokað á tímum Sovétríkjanna."

Dorrit spáði fyrir um kjör Obama

Ólafur Ragnar sagði einnig frá kynnum sínum af forsetum Bandaríkjanna, Bush-fegðum og Obama. „Ég hef hitt báða Bush-feðgana. Sá eldri kom hingað og var gestur okkar. Það var gaman að ræða við hann. Hann er maður sem upplifað hefur margt.

Þann yngri hittum við tvisvar í hvíta húsinu. Hann var alúðlegur en þurfti að taka margar erfiðar ákvarðarnir.

Dorrit hitti Obama í boði hjá Oprah Winfrey, að ég held áður en hann varð þingmaður. Hún hringdi í mig og sagðist hafa hitt næsta forseta Bandaríkjanna, hann héti Obama. Þetta var í fyrsta sinn sem ég heyrði um hann," sagði Ólafur og bætti við að hann hefði ekki haft mikla trú á spá Dorritar.

„Þú svarar ekki fyrir mig, Ólafur"

Ólafur Ragnar var einnig spurður um hvort hann styddi kröfur framhaldsskólakennara um kjarabætur. „Ég tek ekki afstöðu í kjaradeilu en hef lagt á það áherslu í mörg ár hversu mikilvægt kennarastarfið er á öllum stigum.

Það er mikilvægt að átta sig á að auður þjóða í framtíðinni byggist á menntakerfinu. Kennarar sinna líka fjárfestingum fyrir framtíðina sem eru ekki síður mikilvægar en vegir og brýr. Orkubúið í hausnum á okkur er mikilvægari en nokkur virkjun. Því er mikilvægt að skapa þannig aðstæður að menn séu stoltir af því að sinna kennslu."

Þá var Ólafur Ragnar inntur eftir því hvaða súrmætur honum þætti bestur. „Í hreinskilni sagt þá finnst mér súrmatur ekki mjög góður. Ég ólst upp við súrmát hjá afa og ömmu á Þingeyri. Þar var hann á borðum oft í viku sem er kannski ástæðan fyrir því að ég vel frekar saltkjötið þegar ég fer á blót."

En sem oft áður var það Dorrit sem stal senunni. Þegar spurt var um hvernig dagur í lífi forsetafrúarinnar væri byrjaði Ólafur að svara en Dorrit greip ákveðið fram í fyrir honum. „Þú átt ekki að svara fyrir mig, Ólafur!"

forseti egs 0016 webforseti egs 0017 webforseti egs 0018 webforseti egs 0019 webforseti egs 0022 webforseti egs 0023 webforseti egs 0031 webforseti egs 0032 webforseti egs 0035 webforseti egs 0039 webforseti egs 0040 webforseti egs 0044 webforseti egs 0046 webforseti egs 0049 webforseti egs 0051 webforseti egs 0054 webforseti egs 0056 webforseti egs 0058 webforseti egs 0062 webforseti egs 0066 webforseti egs 0068 webforseti egs 0072 webforseti egs 0079 webforseti egs 0080 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar