Forsetinn dæmdi í kökukeppni: Sjaldan sem ég fæ svona skemmtilegt verkefni – Myndir
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var dómari í kökukeppni Skaftfells sem haldin var í tilefni sýningarloka á 15 ára afmælissýningu menningarmiðstöðvarinnar um helgina. Hann heimsótti einnig skóla á Seyðisfirði í ferð sinni þangað.Forsetinn hafði boðað komu sína í Seyðisfjarðarskóla klukkan tíu um morguninn. Honum seinkaði hins vegar um 40 mínútur því blint var og erfitt að fara yfir Fjarðarheiði.
Nemendur í elstu bekkjum skólans tóku á móti Ólafi og kynntu fyrir honum lausn sína í Lego-keppninni frá síðustu viku. Þau fluttu einnig fyrir hann skemmtiatriðið úr keppninni sem var valið það besta.
Þaðan var haldið yfir í Nýja skóla þar sem yngri nemendur sungu fyrir forsetahjónin og sýndu þeim kúlnabraut sem unnin var sem kynning á eðlisfræði.
Ólafur Ragnar var upprifinn af lestrarátaki nemendanna og skýrði þar meðal annars frá því að hann hefði lesið fyrstu Harry Potter bókina.
Íþróttaskóli Hugins var einnig heimsóttur og tók forsetafrúin, Dorrit Moussaieff, virkan þátt í honum en hún skellti sér í kaðlana með krökkunum.
Eftir hádegið var Eyrarrósin afhent í Skaftfelli og forsetinn dæmdi ásamt sýningarstjóranum Birni Roth í kökukeppni sem haldin í tilefni dagsins. Verið var að loka 15 ára afmælissýningu Skaftfells, Hnallþóru í sólinni.
„Það er sjaldan sem ég fæ svona skemmtilegt verkefni," sagði Ólafur. Ólafur og Björn léku við hvern sinn fingur en dæmt var eftir útliti, bragði, þéttleika og hollustu.
Þeir afþökkuðu aðstoð fleiri dómara, svo sem eiginkvenna sinna. „Við erum svo miklu meiri tertumenn," útskýrði Ólafur.
Þeir skiptust síðan á að skera kökurnar. „Finnst ykkur þetta ekki flott," sagði Ólafur og hélt hróðugur á kökusneið. „Jú" kallaði salurinn og forsetinn svaraði til baka. „Þetta er vel skorið!"
Þegar kom að erfiðari skurði sagði forsetinn hins vegar við meðdómara sinn: „Á ég ekki að leyfa þér að skera þessa." Björn snaraði sér úr jakkanum og hófst handa við að skera kökuna.
Að lokum var það kaka Þórunnar Eymundardóttur, fyrrum forstöðukonu Skaftfells, sem bar sigur úr býtum en hún kallaðist „Hnallþóra í sólinni."
Ólafur og Björn sögðu „sögulega tilvísun og stíllegan hreinleika" hafa skipt sköpum um valið. Hnallþóra Þórunnar var mun einfaldri að gerð en aðrar kökur í keppninni.
„Það er afar leitt að segja það við alla þá sem lögðu svona mikið í allar hinar kökurnar að þessi sem amma hefði getað bakað vinnur!"