Litla hryllingsbúðin frumsýnd í kvöld: Plantan reyndi að éta leikarann - Myndir
Djúpið, leikfélag Verkmenntaskóla Austurlands, frumsýnir í kvöld söngleikinn Litlu hryllingsbúðina. Leikstjóri verksins segir um að ræða einhverja umfangsmestu uppfærslu á söngleik sem ráðist hafi verið í á Austurlandi. Mannætuplanta er fyrirferðamikil í verkinu og viðurkennir leikstjórinn að hún hafi verið til vandræða á æfingum.„Já, plantan reyndi að éta annan leikarann sinn! Sá sem hreyfir plöntuna kom blóðugur út eftir átök við hana í vikunni, en þá hafði henni ekki verið gefið að éta í rúman sólarhring. Við pössum okkur á að það gerist ekki aftur. Hún er reyndar á mjög sérstöku fóðri... en það er auðvelt að komst yfir það!" segir Stefán Benedikt Vilhelmsson, leikstjóri.
Litla hryllingsbúðin er söngleikur eftir þá Alan Menken og Howard Ashman sem byggir á samnefndri kvikmynd frá árinu 1960. Söngleikurinn hefur verið settur upp víða um heim, meðal annars þrisvar af íslensku atvinnuleikhúsum. Textana þýddi Megas en Einar Kárason leikgerðina.
Meira fjör í dökkri leikhúsútgáfunni
Stefán segir æfingar hafa gengið vel þótt æfingatíminn hafi verið stuttur. „Sýningin er að verða mjög flott og ef það væri hægt að keppa í listum þá værum við að vinna einhverja titla þessa dagana. Það er búinn að vera alveg gríðarlegur metnaður og ég er þess fullviss að fólk á eftir að finna áþreifanlega hversu mikil vinna hefur farið í sýninguna þegar hurðirnar opnast á frumsýningardag."
Stefán áætlar að um fimmtíu manns komi alls að sýningunni. „Þegar ég mætti í Neskaupstað hafði ég áttað mig á því að þetta yrði alveg gríðarleg vinna. Þetta er flókið leikhús en svoleiðis leikhús er líka það sem mér finnst mest skemmtilegt og gefandi.
Það vita það kannski ekki allir en söngleikjaútgáfa verksins inniheldur allt annan endi en myndin gerir. Leikhúsútgáfan er dekkri og grófari. Það er miklu meira fjör!
Þegar þú vinnur með menntaskólanemum og ungu fólki veistu að það verða sérstakar uppákomur. Þetta ferli hefur eins og búast mátti við verið söfnun fólks á allskonar lífsreynslu og er eiginlega ein stór sérstök uppákoma. Þessi hópur er frábær. Hann er orðinn gríðarlega sterkur og hefur myndað heild sem getur skilað frábærri sýningu."
Dýrasta söngleikjauppfærsla sem ráðist hefur verið í á Austurlandi?
Hann segir mikið lagt í sýninguna sem frumsýnd verður í Egilsbúð klukkan 20:00 í kvöld. „Leikmynd og umgjörð verksins er sérstök. Við erum búin að smíða einhverja stærstu leikmynd sem farið hefur inn á svið í félagsheimili. Notast er við hreyfimyndir sem varpað er á einn vegginn í búðinni og svo er plantan mjög flókið ferli þar sem söngvari og leikari (sá sem hreyfir plöntu) þurfa að vinna gríðarlega náið saman til að skapa rétt áhrif.
Ég hugsa að þetta sé dýrasta söngleikjauppfærsla sem ráðist hefur verið í á Austurlandi. Skólinn er að búa til umhverfi sem hreinlega verður að segjast að er einstakt fyrir þá sem hafa áhuga á leikhúsi og listum. Listaakademían undir stjórn Svanlaugar Aðalsteinsdóttur er alveg ótrúlegt fyrirbæri og verður seint ofmetið til eininga eða sem reynsla fyrir þá sem að þessu koma."
Ef bara að plantan léti sér nægja fisk
Sagan segir frá Baldri sem vinnur í blómabúð hjá fóstra sínum sem gengur illa. Þar vinnur einnig Auður sem hann er ástfanginn af en hún á kærasta, ofbeldisfullan tannlækni. Dag einn kaupir Baldur dularfulla plöntu og nefnir hana Auði II. Viðskiptin blómgast og í ljós kemur að plantan getur talað en sá galli er á að hún nærist á mannablóði og vill helst éta ferskt mannakjöt.
Spurður að því hvort Síldarvinnslan hafi styrkt fóðrun plöntunnar svarar Stefán: „Ef hún myndi nú bara láta sér nægja fisk - hún er óseðjandi! Hún er hægt og rólega að taka yfir líf okkar og einhverra hluta vegna eru allir farnir að finna fyrir undarlegum sjúkdómum og fólk hefur í alvöru horfið af æfingum. Þetta er allt mjög grunsamlegt.
Ég vil samt fullvissa fólk um að það er líklega óhætt að sjá sýninguna... ég lofa því að það verður gaman og það er alls ekkert víst að það verði notað í fóður handa hungraðri plöntu!"
Þrátt fyrir ófærð á Oddsskarði verður frumsýnt á réttum tíma í kvöld. Lokaæfingin í gær féll reyndar niður en hún verður í dag. Snjósleðar voru sendir fyrir skarðið í morgun til að sækja hljóðfæraleikara sem búa sunnan þess.
Myndir: Kristín Hávarðsdóttir