Garðar Eðvalds á leið til Vesterålen: Tveir Norðmenn til Fjarðabyggðar

IMG 4200e webTónlistarmennirnir Sindre Myrbostad og Hugo Hilde frá Sortland í Noregi og Garðar Eðvaldsson frá Eskifirði á Íslandi munu leggja land undir fót á næstu mánuðum. Sindre og Hugo munu dvelja í Jensens-húsi á Eskifirði en Garðar verður í Vesterålen. Þessir listamenn njóta góðs af samstarfi menningarráða Austurlands og Vesterålen í Noregi.

Verkefnið „Rytmefôr" er tónlistarsamstarf á milli Vesterålen í Noregi og Austurlands. Forsvarsmenn verkefnisins eru Eskja á Eskifirði og fóðurverksmiðjan BioMar sem kaupir mjöl frá Eskju.

Að þessu sinni verður lögð áhersla á að kynna unga og hæfileikaríka tónlistarmenn frá hvoru svæði og bjóða upp á tónleika. Í lok mars, mun Garðar Eðvaldsson, ungur saxafónleikari frá Eskifirði sem stundar nám í Reykjavík, fara til Vesterålen til að leika með tónlistarmönnum á svæðinu.

Tónleikar verða haldnir í BioMar, auk þess sem haldnir verða tónleikar í Ekspedisjonen í Sortland, meðal annars með gítarleikaranum Håkon Pedersen og í Bø menningarhúsi með Stórsveit Vesterålen og Julie Willumsen.

Þá mun fiðluleikarinn Hugo Hilde frá Sortland koma til Fjarðarbyggðar í lok júní en hann leggur stund á tónlistarnám í Osló. Hugo mun taka þátt í gönguvikunni „Á fætur í Fjarðarbyggð", meðal annars með tónleikum þar sem heimamenn leggja hönd á plóg.

Sindre Myrbostad er píanóleikari og tónlistarmaður frá Sortland. Hann var valinn úr hópi sjö umsækjenda um ferða- og dvalarstyrk til að vera í Jensens-húsi á Eskifirði. Sindre mun vinna að nýjum tónleikum og halda tónleika í Tónlistarmiðstöð Austurlands.

Markmið norska listamannsins er að vekja áhuga almennings á klassískri tónlist, það hyggst hann gera með því að byggja á reynslu frá bæði skólatónleikum og tónleikum fyrir fólk á öllum aldri og úr öllum hópum samfélagsins. Sindre vill einnig kynna tónlistina með húmor og dramatískri uppfærslu og mun bjóða upp á fyrirlestur um ferilinn eystra.

Menningarráð Austurlands hefur í tíu ár verið í samstarfi við Menningarráðið í Vesterålen í Noregi. Fyrir tilstuðlan samstarfsins, hefur fjöldi listamanna dvalið í listamannaíbúðum í báðum löndum auk fjölda samstarfsverkefna á sviði tónlistar, myndlistar, karnivals, dans og leiklistar.

Garðar, lengst til hægri, á sviði á Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar