Standa fyrir þriggja helga námskeiði í ritlist

skriduklausturFélag ljóðaunnenda á Austurlandi og Gunnarsstofnun í samstarfi við Menntaskólann á Austurlandi og Rithöfundasamband Íslands standa á næstunni fyrir þriggja helga námskeiði í ritlist.

Á námskeiðinu verður í ljóðagerð, örsögur og smásögur. Nemendur fá að spreyta sig á þessum formum undir leiðsögn og verður hverjum og einum mætt þar sem hann er staddur.

Námskeiðið er því ætlað öllum sem á annað borð hafa áhuga á að prófa sig áfram í ritlist, óháð aldri og getustigi. Eitt af markmiðum námskeiðsins er einmitt að stefna saman yngra og eldra áhugafólki um ritlist með það fyrir augum að þátttakendur miðli hver til annars og styrkist þannig í eigin sköpun.

Veitt verður innsýn í ólík handbrögð ritlistar með það að leiðarljósi að þátttakandinn finni sína eigin rödd. Einnig stendur til að fjalla um bókaútgáfu og leiðbeina þátttakendum um hvernig koma megi verkum sínum á framfæri.

Leiðbeinendur eru Ingunn Snædal, Skúli Björn Gunnarsson og Sigríður Lára Sigurjónsdóttir auk Kristian Guttesen sem er umsjónarmaður námskeiðsins en þau eru öll reynslumiklir höfundar. Námskeiðið er að mestu haldið í Menntaskólanum á Egilsstöðum en stefnt er að því að hluti þess fari fram á Skriðuklaustri í Fljótsdal.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Félag ljóðaunnenda á Austurlandi eða Gunnarsstofnun standa fyrir námskeiðahaldi á sviði ljóðagerðar og ritlistar. Einn megin tilgangur námskeiða á borð við þetta er að efla veg ljóðlistar og smásagnagerðar á Austurlandi.

Það byggir á þeirri hugmynd, þrátt fyrir trú margra um að listsköpun verði ekki kennd, að hægt sé að efla fólk í ritlist með leiðsögn og samskiptum við jafningja.

Námskeiðið stendur yfir þrjár helgar, 22.-23. mars, 29.-30. mars og 5.-6. apríl. Skráning fer fram hjá Arnari í netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða síma 858-7247.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar