Ófærðarmynd úr vefmyndavél veitti innblástur að listaverki
![skaftfell veldi 0026 sigrun hlin](/images/stories/news/2014/skaftfell_veldi_0026_sigrun_hlin.jpg)
„Þetta verk er prjónað eftir mynd úr vefmyndavél Vegagerðarinnar sem tekin var á Fjarðarheiði sem tekin var á Fjarðarheiði þegar þar var ófært, fimm metra skaflar og allt í tjóni," segir Sigrún Hlín Sigurðardóttir.
Hún var hluti af útskriftarhópi myndlistarnema í Listaháskóla Íslands sem dvöldust í tvær vikur á Seyðisfirði fyrir skemmstu við vinnu og sýna afraksturinn á sýningunni Veldi.
Verk Sigrúnar er veggteppi úr ull frá Ullarvinnslu frú Láru og er prjónað þannig að úr verður landslagsmynd. Það ber undirtitilinn „Fjarðarheiði – Mjósund, kl. 22:21 – lau. 22. feb. 2014."
Sigrún segist ánægð með upplifunina af Seyðisfirði og merkilegt hafi verið að kynnast lífinu þar. „Okkur var alveg sama þótt við sætum hér föst en það var samt merkilegt að upplifa einangrunina, rafmagnsleysið og alls konar hluti sem geta farið úrskeiðis," sagði hún en rafmagnsleysi kvöldið fyrir opnun sýningarinnar setti töluvert strik í reikninginn við undirbúning hennar.
„Það má segja að maður hafi upplifað affirringu. Maður fær að sjá allt sem manni þykir sjálfsagt en er aftengdur í borgarlífinu."
Sigrún Hlín segir að Seyðfirðingar hafi tekið vel á móti stórum hópi nemanna. „Það gefur manni kraft að sjá hvað fólk getur verið ótrúlega velviljað og tilbúið að gera alls konar hluti fyrir mann."