Djúpivogur sigraði spurningakeppni fermingarbarna í ár
Lið Djúpavogsprestakalls sigraði í spurningakeppni fermingarbarna á Austurlandi sem fram fór fyrir skemmstu. Þrjú lið öttu kappi í úrslitakeppninni sem fram fór eftir fjölskylduguðsþjónustu í Fáskrúðsfjarðarkirkju.Það voru lið Djúpavogsprestakalls, lið Fáskrúðsfjarðarkirkju og lið Egilsstaðakirkju sem komust í úrslitakeppnina en forkeppni var haldin á Eiðum í haust.
Sigurliðið frá Djúpavogi skipuðu þeir Ásmundur Ólafsson, Bergsveinn Ás Hafliðason og Jens Albertsson. Lið Egilsstaðakirkju varð í öðru sæti, skipað þeim Björgvini Ægi Elissyni, Freyju Þorsteinsdóttur og Hreimi Hreini Árnasyni. Lið Fáskrúðsfjarðarkirkju hafnaði í þriðja sæti en keppendur þess voru þau Eva Dröfn Jónsdóttir, Jón Bragi Magnússon og Marín Ösp Ómarsdóttir.
Þetta er í fjórða sinn sem spurningakeppni fermingarbarna á Austurlandi fer fram. Lið Egilsstaða hefur unnið sl. þrjú ár og því haldið farandbikarnum sem vinningsliðið fær, en nú er sá bikar kominn í Djúpavogskirkju og verður þar næsta árið.
Spurningar keppninnar eru í bland almenns eðlis og tengjast því sem unglingarnir eru að fræðast um í fermingarundirbúningnum. Lið Egilsstaða var dregið beint í úrslitaviðureignina en Djúpavogsmenn tryggðu sér hitt sætið þar eftir sigur á sterku liði Fáskrúðsfirðinga í æsispennandi undanúrslitaviðureign.
Úrslitakeppnin sjálf reyndi ekki síður á taugarnar og þegar kom að lokaspurningunni var allt í járnum. Þá var það þekking Djúpavogsbúanna á upprisu Jesú Krists á páskadag sem færði liðinu sigurinn!
Dómari keppninnar í ár var Útsvarskappinn Jón Svanur Jóhannsson frá Eskifirði en stjórnandi Þorgeir Arason, héraðsprestur.