Fyrsta vika LungA-skólans að baki: Stokkið beint út í djúpu laugina
Fyrstu kennsluviku íslenska lýðháskólans, LungA-skólans á Seyðisfirði, er lokið. Forsvarsmenn skólans segjast ánægðir með hvernig gengið hefur fyrstu dagana og Seyðfirðingar séu duglegir að styðja við skólann.Fyrstu nemendurnir mættu í skólann sunnudaginn 9. mars. Á ýmsu gekk við að koma hópnum til Seyðisfjarðar. Fyrsti hluti hópsins þurfti að gista á Egilsstöðum yfir nótt og sá næsti var veðurtepptur á Akureyri til þriðjudags.
Allir komust þó á áfangastað að lokum og segir Björt Sigfinnsdóttir, sem stýrir skólanum, að fyrstu dagarnir hafi gengið mjög vel.
„Hópurinn er orðinn þéttur og búinn að koma sér vel fyrir. Við hoppuðum beint út í djúpu laugina og fórum á bóla kaf í sjálfsskoðun sem varð til þess að það myndaðist mjög innileg stemning strax á fyrstu dögunum."
Kennt verður í mánuð og er tíminn hugsaður til að prófa þá kennslu sem í boði verður frá og með haustinu þegar skólinn fer á fullt. Sautján nemendur frá ýmsum þjóðlöndum taka þátt í prufumánuðinum.
Tíu kennarar koma að skólanum en auk Bjartar kenna þau Jónatan Spejlborg Jenssen, Curver Toroddssen, Saga Sigurðardóttir, Margrét Pála Ólafsdóttir, (Goddur), Sigrún Halla Unnarsdóttir, Ólafur Stefánsson, Börkur Jónsson og Hrund Atladóttir.
Björt segir að á námið ganga út á hvernig nota megi listina og sköpunargáfuna á sem fjölbreyttastan máta.
Á föstudag var til dæmis staðið fyrir opnunarhátíð skólans og fékk hópurinn þá tólf tíma til að skipuleggja hana.
„ Það kom rosalega vel út og hefur félagsheimilið Herðubreið sjaldan verið jafn fallega skreytt," segir Björt.
„Notast var við það sem hendi var næst en Seyðfirðingar hafa verið ofboðslega duglegir við að koma með efnivið og dót úr geymslunum sem verður auðveldlega gull í höndunum á svona skapandi einstaklingum. Við erum í skýjunum með þetta allt saman!"