Leikfélag ME frumsýnir Vælukjóa: Verkfallið hefur hjálpað við æfingar - Myndir
Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum frumsýnir í kvöld söngleikinn „Vælukjóa" í Valaskjálf. Leikstjóri verksins segir áhorfendur eiga von á gleðilegri sýningu en stífar æfingar hafa staðið yfir í vikunni.„Þetta er gleðileg sýning og ég vona að fólk fari út brosandi. Eins og ein sagði við mig áðan: „Mig langar til að fara á ball og dansa." Sýningin á að skilja eftir sig gleði," sagði leikstjórinn Ingrid Jónsdóttir í samtali við Austurfrétt að lokinni lokaæfingunni í gærkvöldi.
Vælukjói kallast á frummálinu „Cry-Baby" og kom fyrst fram sem söngvamynd með Johnny Depp í aðalhlutverki árið 1990. Verkið gerist á sjötta áratugnum og segir frá átökum tveggja þjóðfélagshópa með áhersluna á ást pilts og stúlku úr sitt hvorum hópnum en það samband er ekki til vinsælda eða friðsemdar fallið.
Guðjón Sigvaldason þýddi verkið fyrir uppfærslu leikfélags Verkmenntaskóla Austurlands árið 2006. Í sýningu ME er farin sú leið að vera ekki með neina sviðsmynd heldur nota ljós, hljóð og salinn í Valaskjálf þar sem leikarar ærslast meðal annars upp á svölum.
„Það er mikill kostur að hafa þær. Það er skemmtilegt að hafa þær því ég ætlaði ekki að hafa neina sviðsmynd. Mér finnst allt í lagi að áhorfendur snúi sér aðeins við í salnum."
Sýningin reynir töluvert á leikarana með stökkum, ærslum, dansi og söng og Ingrid viðurkennir að hún sé „fegin" að þurfa ekki að standa sjálf á sviðinu. „Ég hamast hins vegar í að láta þau gera þetta aftur og aftur og aftur. Stundum hafa þau vælt pínulítið, enda í anda verksins. En sýningin er líkamlega erfið og þau hafa æft ofboðslega mikið."
Hún segir æfingarnar hafa gengið vel. Að sýningunni kemur um fjörtíu manna hópur menntskælinga sem Ingrid lýsir sem „duglegum, opnum, vinnusömum og skapandi."
Verkfall framhaldsskólakennara hófst á mánudag og Ingrid segir það hafa komið á besta tíma fyrir sýninguna. „Verkfallið hefur hjálpað því þau hafa haft meiri tíma hér síðustu vikuna. Ég er ofsalega ánægð með að það varð verkfall."