Nýtt lag frá Hlyni Ben: Tók upp alla plötuna á tveimur dögum í Neskaupstað - Myndband

Hlynur Ben webTónlistarmaðurinn Hlynur Ben sendi nýverið frá sér nýtt lag af væntanlegri plötu sem ber nafnið „Leiðin heim." Hlynur safnaði saman vinum, vandamönnum og öðrum sem kunnu að syngja og spila heima í Neskaupstað og tók upp nær alla plötuna á tveimur dögum. Myndbandið við lagið hefur vakið nokkra athygli.

„Þetta er hressandi lag um það að lifa fyrir augnablikið, taka ekki öllu sem sjálfsögðu og hafa ekki óþarfa áhyggjur af því sem skiptir ekki máli," segir Hlynur um lagið „Hrópum."

Lagið er það þriðja af plötunni sem fer í spilun. Myndbandið við það hefur hlotið nokkra athygli en það er klippt saman úr landslagsmyndum teknum af Haraldi Egilssyni á fjarstýrða myndavél.

„Ég hef fengið mjög jákvæða gagnrýni á myndbandið frá brottfluttum Austfirðingum sem aldrei hafa séð Norðfjörð frá þessu sjónarhorni."

Platan sjálf kemur út í maí. Á henni spila fyrst og fremst austfirskir hljóðfæraleikarar enda var hún var hún tekin upp í Neskaupstað og er „norðfirsk í húð og hár," eins og Hlynur orðar það sjálfur.

„Ég sendi „demo" (hráar upptökur) á undan mér og við tókum síðan upp alla plötuna á tveimur sólarhringum í gömlu bókabúðinni. Síðan hef ég unnið eftirvinnsluna syðra."

Hlynur lýsir plötunni sem „léttri og skemmtilegri fjölskylduplötunni." Hann segist hafa átt um 60 lög tilbúin og notið aðstoðar fjölskyldunnar við að velja úr þeim.

„Ég spilaði öll lögin fyrri fimm ára dóttur mína og valdi þau sem henni þóttu skemmtilegust. Þetta eru aðgengileg lög og mikið af la-la köflum."

Bakraddirnar voru teknar upp á klukkutíma en þrettán söngvarar eru skráðir í bakraddakórnum.

„Ég setti auglýsingu á Facebook og spurði „Hver kann að syngja" Ég fékk mikilviðbrögð og við fengum alls konar fólk með okkur í stúdíóið til að syngja."

Hlynur ráðgerir að fylgja plötunni eftir með tónleikum um allt land, meðal annars tvennum útgáfutónleikum, annars vegar í Reykjavík og hins vegar í Neskaupstað.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar