Fljótsdalshérað kallar til varamann fyrir Útsvar: Ég bara tróð mér í þetta

fljotsdalsherad utsvar urslit12 0007 webStefán Bogi Sveinsson tekur sæti Sveins Birkis Björnssonar í Útsvarsliði Fljótsdalshéraðs þegar liðið mætir Kópavogi í átta liða úrslitum keppninnar í kvöld. Sveinn Birkir þurfti að vera á tveimur stöðum í einu og því stökk reynsluboltinn til.

„Það bað mig enginn um að koma, ég bara tróð mér í þetta," segir Stefán Bogi sem keppti um árabil í Útsvarinu en hann var í liðinu sem tapaði fyrir Grindavík í úrslitum árið 2012.

Sveinn Birkir, sem verið hefur í liðinu í vetur eftir að hafa keppt sem varamaður í fyrravetur, er einnig þjálfari Álftaness í annarri deild karla í körfuknattleik en margir Austfirðingar hafa spilað með liðinu. Liðið leikur í kvöld hreinan úrslitaleik gegn Íþróttafélagi Breiðholts um laust sæti í fyrstu deild í haust.

„Hann lenti í erfiðu vali og ákvað að vera með sínum lærisveinum í körfunni. Ég reyni að fylla skarð hans," segir Stefán Bogi sem verið hefur tengilliður sveitarfélagsins vegna keppnina.

Í liðinu eru eftir sem áður Þórður Mar Þorsteinsson og Hrafnkatla Eiríksdóttir. Stefán og Þórður hafa áður keppt saman í spurningakeppnum en þeir voru báðir í liði Menntaskólans á Egilsstöðum sem keppti í Gettu betur fyrir tæpum tuttugu árum.

Keppnin í kvöld hefst klukkan 20:05 og verður í beinni útsendingu í Sjónvarpinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar