Maria Sykes: Þú vilt vinna í samfélagi sem er tilbúið að styðja breytingar

utah fyrirlestur 0004 webViðhorf í samfélagi getur skipt miklu máli fyrir þann sköpunarkraft sem þar getur myndast, segir Maria Sykes, stjórnandi EPIcenter frumkvöðlamiðstöðvarinnar í Utah í Bandaríkjunum. Hún kom miðstöðinni á fót ásamt félögum sínum en takmarkið er að lífga upp á smábæinn Green River.

Þetta kom fram í máli Mariu sem hélt fyrirlestur á vegum Austurbrúar í gær. Hún starfar í Green River, 950 manna þorpi í Utah-fylki í Bandaríkjunum.

Bærinn var stofnaður fyrir um 150 árum af bandarísku póstþjónustunni sem ferjustaður en hann stendur við eina staðinn þar sem hægt er að koma yfir samnefnt fljót. Atvinna bæjarbúa byggist enn á að þjónusta ferðalanga en í bænum eru 600 gistipláss sem eru fullnýtt yfir sumarið.

Önnur atvinna hefur samt verið á undanhaldi síðustu áratugi og segir María að þegar hún flutti þangað fyrri fimm árum hafi bærinn einkennst af „tómum byggingum, rykugum götum" og að þar hafi „ekki mikið verið að gerast."

Aðstoð við endurbætur á heimilum

María og tveir félagar hennar eru útskrifaðir arkitektar og komu til bæjarins í gegnum AmeriCorps, sem er verkefni á vegum bandarísku alríkisstjórnarinnar sem snýst um að fá sjálfboðaliða til að taka að sér ýmis sjálfboðaliðastörf, svo sem fegrun bæja.

María og félagar fengu styrki til að kaupa yfirgefið hús í hjarta bæjarins og taka það í gegn. Þar eru höfuðstöðvar þeirra, EPIcenter.

Þau hafa síðan tekist á við ýmis verkefni til að efla bæinn, eitt í einu. Einna fyrst var að lappa upp á heimili bæjarbúa. EPIcenter veitti þeim smálán og hönnun til að þeir gætu gert sjálfir við gömul hús sín þannig að hægt væri að hámarka nýtingu orkunnar sem þau notuðu. Þar með var snjóboltinn kominn af stað.

Þá söfnuðu þau gögnum um allt húsnæði í bænum og settu upp myndrænt þannig að auðveldara yrði fyrir þá sem þurftu að vinna með þau að átta sig á stöðunni. „Það er auðveldara að sjá mynstur þegar gögnin eru myndræn."

Betri samskipti í samfélaginu

Þau hafa einnig unnið að því að efla hagkerfi bæjarins. Fyrsta skrefið þar var að efla samskipti á milli bæjarbúa. Komið var á fundum tvisvar í mánuði þar sem menn hittust og ræddu ferðamennsku og fegrun bæjarins.

Maria segir hugsun þeirra byggjast á að vinna með fólkinu í samfélaginu og nýta þá sérþekkingu sem það býr yfir. Betra sé að nota heimatilbúnar og sérsniðnar lausnir fremur en heildarlausnir ofan úr stjórnkerfinu.

Í ferðamennskunni sé þekking heimamanna til dæmis nýtt til að vísa ferðamönnum á áhugaverða staði. Þá sé það verkefni hönnuðanna að sýna bæjarbúum hvaða leiðir séu mögulegar.

Hönnuðirnir sjá áhrif sín

Þau hafa einnig komið á móttöku fyrir listamenn sem koma til bæjarins, dvelja þar í mánuð og vinna bæði fyrir samfélagið og að eigin verkefnum. „Listin er áhrifamikið verkfæri til að sameina fólk."

Þá hafa þau boðið til sín nemum til að vinna að fegrun bæjarins. „Þegar ungt fólk kemur til bæjarins verður bæjarstjórnin spennt og framhaldsskólanemarnir sjá hvað hægt er að gera."

Maria segir eitt best heppnaða verkefnið hafa verið útgáfu tímarits. Til að vinna það hafi verið haldnar vinnustofur og íbúarnir sjálfir séð um að finna og vinna efni í blaðið. Það endurspeglar bæði samvinnu og sjálfsmynd íbúanna.

Maria segir það hafa verið ákveðna áskorun að tengjast fólkinu fyrst en um leið og þau hafi farið að tala við íbúa og ræða hugmyndir sínar hafi þeim verið tekið opnum örmum.

„Bæjarstjórnin var tilbúin að styðja við breytingar. Þú vilt alltaf vera í samfélagi sem styður breytingar og vill þig. Það er gefandi fyrir hönnuð að vinna með samfélaginu því þú sérð áhrif þín, bæði góð og slæm."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar