17. júní á Austurlandi 2023
Hátíðarræður, fjallkonur, leikir, tónlist og veitingar verða á sínum stað á hátíðahöldum í tilefni af þjóðhátíðardeginum 17. júní á Austurlandi í ár. Heitt verður í veðri.Á Egilsstöðum verður skrúðganga gengin frá Egilsstaðakirkju í Tjarnagarðinn klukkan 11, að lokinni messu sem hefst þar hálftíma fyrr. Hátíðardagskrá í garðinum með ræðu, dagskrá á sviði og fjallkonu hefst þar klukkan 13:00.
Á Seyðisfirði verður blómsveigur lagður að leiði Björns Jónssonar frá Firði eins og venjan er klukkan tíu. Klukkan eitt fer skrúðganga frá Sólveigartorgi að Seyðisfjarðarkirkju. Í garðinum við kirkjuna verður dagskrá með ávarpi, tónlist, hátíðarmessu og fjallkonu.
Borgfirðingar fara í skrúðgöngu eins og aðrir. Hún leggur af stað frá Heiðinni klukkan 13:00 inn að íþróttavelli. Þar verða síðan leikir og stemming. Á Djúpavogi eru leikir á Neistasvæðinu frá klukkan 14.
Sameiginleg hátíðahöld Fjarðabyggðar verða á Reyðarfirði að þessu sinni, á grassvæðinu aftan við grunnskólann. Það verða skemmtiatriði, hátíðarræða og ávarp fjallkonu.
Hátíðardagskráin á Vopnafirði verður við skólann og hefst klukkan 13:00. Þar verða ræðuhöld, fjallkona og leikir. Klukkan 14:30 verður gengin skrúðganga að Miklagarði þar sem verður hátíðarkaffi. Gestir þar eru hvattir til að mæta í þjóðbúningum, líkt og í messu í Hofskirkju klukkan 11.
Spáð er miklum hita á morgun, strax 20 gráðum klukkan átta í fyrramálið. Hitinn á að breiða úr sér yfir allan fjórðunginn. Einhver vindur verður þó eftir hádegið. Forvitnilegt verður að sjá hvort hærri hitatölur sjást en í dag, klukkan þrjú mældist 27,8 stiga hiti á Hallormsstað.
Ítarlegri dagskrá fyrir daginn má finna á heimasíðum sveitarfélaganna, hjá Fjarðabyggð, Múlaþingi og Vopnafjarðarhreppi.