17. júní á Austurlandi 2023

Hátíðarræður, fjallkonur, leikir, tónlist og veitingar verða á sínum stað á hátíðahöldum í tilefni af þjóðhátíðardeginum 17. júní á Austurlandi í ár. Heitt verður í veðri.

Á Egilsstöðum verður skrúðganga gengin frá Egilsstaðakirkju í Tjarnagarðinn klukkan 11, að lokinni messu sem hefst þar hálftíma fyrr. Hátíðardagskrá í garðinum með ræðu, dagskrá á sviði og fjallkonu hefst þar klukkan 13:00.

Á Seyðisfirði verður blómsveigur lagður að leiði Björns Jónssonar frá Firði eins og venjan er klukkan tíu. Klukkan eitt fer skrúðganga frá Sólveigartorgi að Seyðisfjarðarkirkju. Í garðinum við kirkjuna verður dagskrá með ávarpi, tónlist, hátíðarmessu og fjallkonu.

Borgfirðingar fara í skrúðgöngu eins og aðrir. Hún leggur af stað frá Heiðinni klukkan 13:00 inn að íþróttavelli. Þar verða síðan leikir og stemming. Á Djúpavogi eru leikir á Neistasvæðinu frá klukkan 14.

Sameiginleg hátíðahöld Fjarðabyggðar verða á Reyðarfirði að þessu sinni, á grassvæðinu aftan við grunnskólann. Það verða skemmtiatriði, hátíðarræða og ávarp fjallkonu.

Hátíðardagskráin á Vopnafirði verður við skólann og hefst klukkan 13:00. Þar verða ræðuhöld, fjallkona og leikir. Klukkan 14:30 verður gengin skrúðganga að Miklagarði þar sem verður hátíðarkaffi. Gestir þar eru hvattir til að mæta í þjóðbúningum, líkt og í messu í Hofskirkju klukkan 11.

Spáð er miklum hita á morgun, strax 20 gráðum klukkan átta í fyrramálið. Hitinn á að breiða úr sér yfir allan fjórðunginn. Einhver vindur verður þó eftir hádegið. Forvitnilegt verður að sjá hvort hærri hitatölur sjást en í dag, klukkan þrjú mældist 27,8 stiga hiti á Hallormsstað.

Ítarlegri dagskrá fyrir daginn má finna á heimasíðum sveitarfélaganna, hjá Fjarðabyggð, Múlaþingi og Vopnafjarðarhreppi.


 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.