Rímur og rokk til Vesterålen í Noregi
Dagana 14. – 20. apríl nk. munu níu íslensk ungmenni á aldrinu 15-17 ára af norðausturhorni landsins halda til Vesterålen í Norður-Noregi þar sem þau munu kynna íslenskar rímur. Ferðin er lokahnykkur þriggja ára verkefnis undir yfirskriftinni „Rímur og rokk".Undanfarin tvö ár hafa ungmenni af norðausturhorni landsins unnið með rímur og þjóðlög. Síðastliðið sumar bættust í hópinn ungmenni frá Vesterålen í Norður-Noregi og saman unnu þau undir stjórn Steindórs Andersens kvæðamanns, Hilmars Arnar Hilmarssonar tónskálds, Baldvins Eyjólfssonar tónlistakennara og Sigrid Randers-Pehrson þjóðlagasöngkonu.
Í Noregi munu ungmennin vinna að dagskrá sem tekur u.þ.b. eina klukkustund í flutningi þar sem þau íslensku læra norsk þjóðlög en þau norsku spreyta sig á íslenskum rímum ásamt því að flytja eitthvað af efninu sem til varð á Vopnafirði síðastliðið sumar.
Rímur og rokk er samstarfsverkefni milli menningar- og fræðasetursins Kaupvangs á Vopnafirði og Menningarráðs Vesterålen Regienråd í Noregi. Markmið verkefnisins er að viðhalda menningararfleifðinni sem felst í rímum og þjóðlögum ásamt því að þróa áfram þessi fornu kvæðaform með margvíslegri tónlist við ýmis kvæðalög Íslendinga og Norðmanna og flétta þessar tvær menningararfleifðir saman.
Hugmyndasmiður verkefnisins er Sigríður Dóra Sverrisdóttir og hefur hún notið aðstoðar Hrundar Snorradóttur hjá Austurbrú við verkefnastjórnun. Verkefnið hefur sem fyrr segir verið unnið í samstarfi við Menningarráð Austurlands og Menningarráð Vesterålen og notið bæði fjárhagslegs stuðnings og hvatningar. Fjölmargir aðilar hafa lagt sitt að mörkum til að gera hópnum kleift að halda til Noregs til að ljúka þessu þriggja ára verkefni. Þau eru HB Grandi, Bílar og vélar ehf., Samfélagssjóður Alcoa-Fjarðaráls, Vopnafjarðarhreppur og Ísfélagið.
Menningarráð Austurlands hefur í tíu ár verið í samstarfi við Menningarráðið í Vesterålen í Noregi. Fyrir tilstuðlan samstarfsins hefur fjöldi listamanna dvalið í listamannaíbúðum í báðum löndum auk fjölda samstarfsverkefna á sviði tónlistar, myndlistar, karnivals, dans og leiklistar.