Birgir Guðmunds: Hlutverk samfélagssmiðsins mögulega mikilvægara en nokkru sinni fyrr

birgir gudmundsson webÞeir sem fylgjast með héraðsfréttamiðlum eru almennt virkari í samfélaginu heldur en þeir sem gera það ekki. Staðarmiðlar feta oft vandrataðan stíg á milli þess að vera samfélagssmiðir og varðhundar.

Þetta kom fram í máli Birgis Guðmundssonar, dósents við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri á málþingi sem Austurfrétt og Austurglugginn stóðu fyrir um stöðu héraðsfréttamiðla á Egilsstöðum á laugardag.

Birgir kynnti þar til sögunnar hugtakið samfélagssamheldni sem notað er til að reyna að mæla þátttöku fólks í sínu samfélaginu. Samfélagið getur bæði afmarkast af land- og félagsfræðilegum þáttum.

Í erlendum rannsóknum hefur verið sýnt fram á samband samfélagssamheldni, lýðræðislegrar þátttöku og þess að fylgjast með staðbundnum miðlum. „Allir þessir þættir krefjast þátttöku borgaranna í umræðu og þekkingu. Í gegnum miðilinn fer fram umræða og sameiginleg niðurstaða."

Sambærilegar niðurstöður komu fram í rannsókn sem gerð var á Akureyri árið 2010. Þar komu fram vísbendingar um að þeir sem áskrifendur að staðarblaðinu voru ólíklegri til að vilja flytja burtu, áhugasamari um það sem var að gerast, tilbúnir að vinna með öðrum og upplifðu sig frekar sem hluta af samfélaginu.

Svæðismiðlarnir þurfa þó oft að feta þröngan stíg. Þeim er bæði ætlað að vera varðhundurinn sem er gagnrýnin á vald og valdhafa og geltir þegar þeir brjóta af sér og samfélagssmiðir sem spegla samfélagið og eiga þátt í að byggja upp sjálfsmynd þess.

Birgir segir að samfélagssmiðurinn leiki gjarnan stærra hlutverk í minni samfélögum og á svæðisbundnum miðlum. Þar kunni að vera „erfiðra fyrir varðhundinn að gelta." Landsmiðlarnir sinni hins vegar frekar varðhundshlutverkinu.

„Fjölmiðlar leita að jafnvægi og reyna að sinna hvoru tveggja. Það skiptir máli að einhver fjalli um leikverkið og kökubasarinn og stundum er of lítið gert úr hlutverki samfélagssmiðsins."

Hann segir hið samfélagslega samtal víða brothætt því hefðbundnir staðarmiðlar séu víða í rekstrarþrengingum. Sums staðar taki sjónvarpsdagskrár við hlutverki samfélagsspegla.

„Ég hafði aldrei heyrt það fyrr en ég fluttist norður að menn gerðust áskrifendur að sjónvarpsdagskránni en það gera brottfluttir til að geta fylgst með."

Birgir hafnar því að hlutverk svæðismiðlanna hverfi með tilkomu samfélagsmiðla á borð við Facebook og Twitter. „Hefðbundnir miðlar eru enn mikilvægasta fóðrið fyrir samfélagsmiðlana. Þaðan kemur efnið sem deilt er."

Hann segir stafrænu byltingunni fylgja sú hætta að menn einangri sig inni í bergmálshelli og heyri aðeins það sem þeir vilji heyra. Við það minnki samtalið milli þeirra sem hafi ólíkar skoðanir.

„Hlutverk samfélagssmiðsins, þótt það þyki ekki fínt, er ef vil vill mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr á sama tíma og varðhundshlutverkið heldur sínu."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar