Emilíana Torrini snýr aftur á Bræðsluna: Dagskrá sumarsins tilbúin

braedslan 2103 0350 webEmiliana Torrini snýr aftur á heimaslóðir á Borgarfirði eystri á Bræðslunni sem haldinn verður í tíunda skiptið í sumar en Emilíana kom fram á fyrstu tveimur Bræðslunum. Austfirska sveitin SúEllen verður meðal þeirra sex atriða sem í boði verða á hátíðinni í ár.

SúEllen-liðar hafa aldrei spilað fullskipaðir á Borgarfirði en hluti sveitarinnar kom fram með Jónasi Sig á tónleikaröð hans árið 2012. Að auki koma fram Drangar, Lára Rúnars, Mammút og Evróvision-fararnir úr Pollapönki.

Meðlimir Dranga þeir Jónas Sigurðsson, Mugison og Ómar Guðjónsson hafa allir komið fram áður á Bræðslunni, auk þess sem þeir unnu hluta af sinni fyrstu plötu á Borgarfirði.

Lára Rúnarsdóttir og meðlimir hennar hljómsveitar sigldu einmitt með þeim Dröngum í kringum landið á Húna II á síðasta ári og komu meðal annars við á Borgarfirði, en þetta verður í fyrsta skiptið sem Lára kemur fram í Bræðslunni.

Sömu sögu er að segja um ungliða þessa árs, Mammút sem hafa vakið mikla athygli á síðustu mánuðum. Bræðslan hefur alla tíð haft það markmið að kynna ungt tónlistarfólk á hátíðinni og er þar skemmst að minnast Of Monsters and Men sem komu fram á hátíðinni 2010, þá að stíga sín fyrstu spor.

Miðasala hefst á miði.is þann 6.maí kl 10:00. Á síðasta ári seldust miðar í Bræðsluna upp á 60 klukkustundum.

Fjöldi annarra tónleika mun verða í boði á Borgarfirði í aðdraganda Bræðslunnar og reyndar í allt sumar, nánar verður greint frá þeim þegar nær dregur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar