Menningarvika í Valaskjálf: Vilja efla menningarstarf í heimabyggð
Menningarfélag Héraðsbúa stendur fyrir menningarviku í Valaskjálf á Egilsstöðum sem hefst í dag. Félagið var nýverið endurvakið og segir talsmaður þess markmiðið að efla hvers konar menningarstarf á svæðinu.Vakan hefst klukkan 17 í dag með opnun myndlistarsýningar Bjartmars Guðlaugssonar en þetta er fyrsta sýning bjartmars á verkum sínum á Austurlandi.
Síðan rekur hver viðburðurinn annan, í kvöld heldur Bjartmar tónleika og dansverkið Dansaðu fyrir mig verður sýnt, annað kvöld er skemmtikvöld með heimamönnum, ljósmyndasýning á sunnudag, grínhópurinn Mið-Ísland mætir á mánudag en vökunni lýkur með kótelettukvöldi, barsvari og dansleik á miðvikudagskvöld.
„Hún er alltaf í gangi þessu umræða að það sé aldrei verið að gera neitt og það hefur oft verið dauft í kringum páska þannig þetta er viðleitni til að kanna hvort það sé áhugi," segir Jón Arngrímsson, einn af skipuleggjendum vikunnar.
„Þetta er líka tilraun til að fá heimamenn til að taka þátt því dagskráin á laugardagskvöldið byggir alfarið á heimafólki. Það eru margir okkar á meðal sem er ýmislegt til lista lagt," segir Jón en búið er að undirbúa vel á annan tug atriða með ljóðlist, tónlist og sögum.
Að vikunni standa Menningarsamtök Héraðsbúa sem hafa legið í dvala frá árinu 1995. Jón segist menningarvökuna fyrsta skrefið í endurvakningu þeirra.
„Við reiknum ekki með að hætta eftir vikuna. Við erum alveg vís til að beita okkur víðar, til dæmis með að styðja við fólk í menningarstarfi og fá fleira fólk í samstarf. Þetta er opinn félagsskapur þeirra sem hafa áhuga á hvers kyns menningarstarfsemi og það er afar vítt hugtak."
Við þetta er því að bæta að klukkan 18;00 opnar ljósmyndasýningin Úlfaspor í Sláturhúsinu. Þar sýna feðgarnir Úlfur Björnsson og Björn Ingvarsson myndir sem teknar voru á austurströnd Grænlands árið 2012. Sýningin stendur út maí.