Bóndinn á Brekkubæ hitti Bastian Schweinsteiger
![asgeir brekkubae bastian schweinsteiger web](/images/stories/news/2014/asgeir_brekkubae_bastian_schweinsteiger_web.jpg)
„Hann var mjög almennilegur," segir Ásgeir af stuttum kynnum sínum af knattspyrnumanninum. Bayern-liðið var á heimleið eftir 1-1 jafntefli við Manchester United í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Schweinsteiger var atkvæðamikill í leiknum, skoraði mark gestanna og fékk rauða spjaldið undir lokin.
Brottvísunin virðist samt ekki hafa truflað Bastian. „Við töluðum ekki mikið saman en við fengum að taka þessa mynd af gamni okkar," segir Ásgeir.
Hann segir stuðningsmenn Bayern hafa verið áberandi á flugvellinum en Ásgeir og hans samferðafólk röltu síðan út að brottfararhliðinu samhliða leikmönnum liðsins. „Þeir voru 7-8 sem gengu saman. Markvörðurinn skar sig úr því hann var höfðinu hærri en hinir."
Ásgeir hafði sjálfur farið á Old Trafford og séð sitt lið United vinna Aston Villa á laugardegi, 4-1. Meistaradeildarleikinn sá hann í sjónvarpinu. „Andlitið á Bastian var manni enn í fersku minni þegar maður sá hann á flugvellinum daginn eftir því hann var í eldlínunni."
Ásgeir var í vikulangri ferð ásamt börnum sínum og dvaldi hjá syni sínum Heiðari sem verið hefur í námi í Leeds. Í samtali við Austurfrétt sagðist Ásgeir hinn ánægðasti með ferðina sem meðal annars hefði verið nýtt til að heimsækja hina fornfrægu borg York.
Félagarnir Ásgeir og Bastian á flugvellinum í Manchester. Mynd: Aldís Fjóla Ásgeirsdóttir Borgfjörð