Við hjálpum: Lionsklúbburinn Múli styrkti ungmennafélög og legóhóp

lions styrkir 0016 webUngmennafélögin Ásinn og Þristur auk legóhóps Brúarásskóla hlutu styrki á nýafstöðnum aðalfundi Lionsklúbbsins Múla. Klúbburinn var að ljúka sínu 44. starfsári.

Hvort félag fékk 50 þúsund krónur en legóhópurinn, sem keppir á Evrópumóti á Spáni í vor, fékk 75.000 krónur.

Klúbburinn gefur á hverju ári út dagatal sem fyrirtæki á svæðinu kaupa auglýsingar á og er því síðan dreift á öll heimili og til fyrirtækja á Fljótsdalshéraði.

Aðrar fjáraflanir klúbbsins er rekstur útfararbifreiðar, leiga á leiðiskrossum og uppsetning á þeim í grafreitum um jólahátíðina.

Múli hefur einnig séð um jólaball í samstarfi við sveitarfélagið Fljótsdalshérað.

Fyrir jólin eru þeir sem dvelja á Hjúkrunarheimilinu á Egilsstöðum heimsóttir og þeim gefið konfekt.

Klúbburinn hefur einnig tekið þátt í því ásamt Rauða Krossinum og fleiri aðilum að leggja peninga í sjóð sem notaður er til að deila til þeirra sem lítið hafa handa á milli fyrir jólin.

Erna Friðriksdóttir skíðakona hefur verið styrkt peningalega undanfarin ár við æfingar og keppni.

Lionsklúbburinn Múli á Fljótsdalshéraði er nú að ljúka sínu fertugasta og fjórða starfsári. Félagar í klúbbnum eru 12 talsins og hefur þeim farið fækkandi undanfarin ár. Erfiðlega gengur að fá nýja félaga í klúbbinn. Starfsemi klúbbsins hefur verið hefðbundin þetta starfsár.

Kjörorð Lionshreyfingarinnar er: Við hjálpum. Lionsklúbburinn þakkar Héraðsbúum stuðninginn á liðnum árum. Með stuðningi hefur Lionsklúbburinn Múli lagt sitt af mörkum með því að styrkja ýmis góð málefni í samfélaginu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar