Leikfélag Norðfjarðar frumsýnir Skvaldur: Við erum svo hæfileikarík hér á Norðfirði
![skvaldur ln 0001 web](/images/stories/news/2014/skvaldur_ln_0001_web.jpg)
„Við héldum námskeið til að velja í hlutverkin og þar mættu 20 manns en hlutverkin eru bara níu. Við höfðum áhyggjur af því að við myndum lenda í vandræðum með að manna þau en þær hurfu fljótt," segir Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir, formaður Leikfélags Norðfjarðar.
Í allt koma um þrjátíu manns að uppsetningunni á öllum aldri. „Það er frábært hversu góðar undirtektirnar hafa verið og gaman hversu ungu krakkarnir eru að taka þátt. Þau ganga hér í ýmis störf sem ekki eru endilega lögð á unglinga svo sem tæknistjórn og búningahönnun.
Þetta eru ögrandi og þroskandi verkefni," segir Þórfríður og bætir því við að nemendur í 7. bekk bíði óþreyjufullir eftir að geta tekið þátt því lágmarksaldur í félagið eru 14 ár.
Leikfélagið var endurvakið í fyrra eftir fimmtán ára dvala og sett upp barnaleikritið Allt í plati. LN hefur einnig unnið með Djúpinu, leikfélagi VA, sem sett hefur upp sýningar árlega, nú síðast Litlu hryllingsbúðina. Þá er hefð fyrir því að níundi bekkur grunnskólans sýni leikverk sem í haust var Með allt á hreinu.
„Við erum svo hæfileika rík hér á Norðfirði. Þetta gefur líf í bæinn og bæjarbúum finnst gaman að það sé eitthvað um að vera," segir Þórfríður.
Leikflokkur á bjargbrúninni
Skvaldur er farsi sem fjallar um leikflokk sem er að setja upp farsa sem kallast Allslaus. Þar neyðast til að vinna saman ólíkir persónuleikar svo sem gamall drykkjurútur, dramadrottning og maður með athyglisbrest á háu stigi.
Verstur allra er þó leikstjórinn Leifur. „Það er gott að vera með svona ógeðslega leiðinlegan leikstjórakarakter því þá stýrir hann mér á rétta braut og sýnir mér hvernig ég á ekki að haga mér. Ég hef reynt að gera flest allt í andstöðu við hann," segir Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir, leikstjóri.
„Við fylgjumst með fólki sem er að missa þolinmæðina eða er að láta aðra missa þolinmæðina. Þegar allir eru komnir á tæpasta vað grípur um sig mikil örvænting.
Það kannast allir við Leif því hann finnst víða í svona ferlum þar sem fólk er orðið stressað og við það missa stjórná sér. Þegar fólki líður eins og allt sé að renna því úr greipum getur maður dottið í Leifinn en það er enginn sem er Leifurinn allan tímann."
Bætt við verkið
Bryndís er nýútskrifuð af sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands. „Ég er miðbæjarrotta úr Reykjavík en mig langaði að gera eitthvað ævintýralegt og fannst spennandi að fá að fara algjörlega hinum megin á landið."
Hún er ánægð með samstarfið við Norðfirðingana. „Við höfum haldið vel á spöðunum og náð að gera verkið fyndnara en það er skrifað á blaðinu. Við höfum bætt við persónulegum áherslum sem gera það skemmtilegra áhorfs.
Ég er búinn að ná meiru út úr fólkinu en ég þorði að vona. Þau eru komin með hraða og viðbrögð á við atvinnumenn og það fæst bara með góðri samvinnu.
Hér er mikill metnaður fyrir að gera hluti almennilega. Menn gera ekki bara það minnsta heldur bæta við. Hér er til dæmis leikmynd á tveimur hæðum sem er sú stærsta sem ég hef séð á svona litlum stað."
Og hún segist ekki vera orðin að Leifi. „Nei – en ég hef enn tækifæri til að sturlast."