Opnaði kaffihús á Vopnafirði: Hef varla undan að baka

sigurbjorg halldorsdottir vopna 0005 webSigurbjörg Halldórsdóttir opnaði í byrjun mars kaffihúsið Kaupvangskaffi á Vopnafirði. Hún segist ánægð með viðtökurnar fyrstu mánuðina. Hún leggur áherslu á að vinna sem mest af vörunni sem hún selur sjálf.

„Mig hefur alltaf langað til að eiga svona lítinn sætan rekstur með einhverju góðu að borða," segir Sigurbjörg.

Kaffihús hefur verið rekið í Kaupvangi árum saman samhliða upplýsingamiðstöðinni en fyrrum rekstraraðili ákvað að hætta eftir síðasta sumar.

„Þar með var laust gott húsnæði á frábærum stað og það var skemmtilegt tækifæri sem ekki var hægt að sleppa," segir Sigurbjörg.

„Viðtökurnar hafa verið rosalega góðar, í raun framar mínum væntingum. Ég reyni að baka allt sjálf og hef varla undan. Þetta er mikil vinna en ég á góða að."

Sigurbjörg bakar sjálf allar kökur auk þess sem hún gerir súpurnar sem hún býður upp á í hádeginu frá grunni.

„Já – mér finnst gaman að elda og baka," viðurkennir hún. „Það eru ekki mörg kaffihús með heimabakað. Oftast er bakkelsið fengið úr bakaríum þannig þetta er aðeins öðruvísi."

Sigurbjörg er 26 ára gömul, uppalin í Njarðvík. Hún hefur búið á Vopnafirði undanfarin fimm ár og starfað á leikskólanum en nam áður húsasmíði.

„Mér finnst huggulegt og þægilegt að vera hér og stutt í allt. Síðan reyna allir að vera vinir," bætir hún við og hlær.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar