Álfasala SÁÁ hefst í dag
Árleg álfasala SÁÁ hófst í dag og stendur fram á sunnudag. Álfurinn verður boðinn til sölu um allt land. Bæði verður gengið í hús og selt fyrir utan verslanir og aðra fjölfarna staði. SÁÁ væntir þess að landsmenn taki sölufólkinu vel, nú eins og ávallt. Álfurinn kostar nú 2000 krónur, sem er sama verð og síðustu ár.Álfurinn 2014 er seldur til að efla enn frekar þjónustu SÁÁ við unga fólkið og rennur söluhagnaður til slíkra verkefna. SÁÁ hefur rekið sérstaka unglingadeild á Vogi frá árinu 2000 og hefur meðferð þar skilað miklum árangri. Næsta skref í uppbyggingu þeirrar meðferðar er að styðja enn betur við bakið á ungmennunum þegar meðferð lýkur og styrkja þau félagslega.
Einnig býður fjölskyldudeild SÁÁ upp á mikilvæga sálfræðiþjónustu fyrir börn sem eiga foreldra sem glíma við áfengis- eða vímuefnavanda og standa tekjur af álfasölunni meðal annars undir þeirri þjónustu.
SÁÁ stefnir að því að auka þjónustu sína við börn alkóhólista og koma henni á varanlegan grundvöll en hingað til hefur þessi þjónusta að mestu leyti verið kostuð af sjálfsaflafé samtakanna.
Álfasalasala á vegum SÁÁ hefur farið fram árlega frá 1990 og gegnir mikilvægu hlutverki í fjáröflun samtakanna. Í fyrra seldust um 30.000 Álfar. Frá því að sala á Álfinum hófst hafa hreinar tekjur samtakanna vegna hans verið meira en 450 milljónir króna.
Þeir fjármunir hafa til dæmis kostað uppbyggingu unglingadeildar við sjúkrahúsið Vog, starfsemi fjölskyldumeðferðar og einnig hafa tekjur af Álfinum gert SÁÁ kleift að þróa úrræði fyrir börn alkóhólista, unga fíkla og fjölskyldur.