Vættir á vappi á List án landamæra

list an landamaera webListahátíðin List án landamæra verður sett í sjöunda sinn á Austurlandi um helgina. Hátíðin breiðir úr sér með fjölda viðburða í sex sveitarfélögum næstu tvær vikur. Lögð er áhersla á samvinnu ólíkra hópa á hátíðinni.

„Grunnhugmyndin að baki Listar án landamæra er að vekja athygli á listsköpun fatlaðra. Hún hefur hins vegar þróast yfir í hátíð þar sem allir eru með," segir Kristín Rut Eyjólfsdóttir, verkefnisstjóri Listar án landamæra á Austurlandi. „Við leggjum mikla áherslu á sýnilegt samstarf milli ólíkra hópa og að fatlaðir og ófatlaðir vinni saman og fái að njóta sín í listsköpun."

Þema hátíðarinnar í ár eru vættir og þjóðsögur og því verða slíkar forynjur áberandi á henni. Þannig hafa Grýla og Leppalúði boðað komu sína á setninguna við Gistihúsið á Egilsstöðum klukkan 14:00 á laugardag en í Miklagarði á Vopnafirði verður opnuð sýning á verkum leikskólabarna upp úr þjóðsögum. Sýningar verða opnaðar á þremur stöðum á Djúpavogi á morgun. Listviðburðir verða síðan á víð og dreif um Austurland fram til 25. maí.

Veitinga- og þjónustuaðilar á Héraði taka einnig þátt í hátíðinni og munu aðlaga framreiðslu sína að þema hátíðarinnar, meðal annars með að bjóða upp á tröllahlaðborð og drekaborgara. Kristín segir markmið þessa samstarfs vera að færa hátíðina nær íbúum og þeirra daglega lífi.

Hátíðin er nú haldin í sjöunda sinn á Fljótsdalshéraði en í annað sinn í Fjarðabyggð og á Seyðisfirði. Dagskrá er nú á Borgarfirði, Djúpavogi og Vopnafirði í fyrsta sinn. Nánar má fræðast um dagskrá hátíðarinnar á www.listin.is eða með því að leita að „List án landamæra – Austurland" á Facebook.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar