Bubbi og feðgarnir um helgina
Sýningaropnun verður á Skriðuklaustri á laugardag og fyrirlestur í kjölfarið. Myndlistarsýningin Bubbi verður opnuð kl. 14. Um er að ræða samsýningu Arons Kale og Írisar Lindar Sævarsdóttur og er hún hluti af listahátíðinni List án landamæra.„Nokkra föstudagsmorgna hittumst við og unnum saman á vinnustofunni í Sláturhúsinu. Sýningin Bubbi er um bubbann innra með okkur sem getur tekið á sig margar myndir. Við sýnum hann ekki öllum og hræðumst hann jafnvel sjálf.
Stundum er bubbi leiður, einmana, sorgmæddur eða vondur, stundum setur hann upp grímu en stundum er hann glaður og dansar við minnsta tilefni. Það er gott að tala um bubbann innra með okkur og skilja af hverju hann er þarna því þá verðum við kannski örlítið hamingjusamari," segja Íris og Aron um sýninguna.
Í kjölfar opnunarinnar hefst fyrirlestur Önnu Kristjánsdóttur kl. 16. Hann ber heitið Feðgarnir og í honum fjallar Anna um bók sem er í smíðum og segir frá hinu einstaka sambandi tveggja feðga við lok 19. aldar, þeirra Sæbjörns Egilssonar (1837-1894) bónda á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal og Magnúsar Sæbjörnssonar (1871-1924) síðar læknis í Flatey á Breiðafirði. Bókin byggir á víðtækum heimildum um staðhætti, mannlíf og tíðarfar, m.a. dagbókum Sæbjarnar frá 1882-1893 og Magnúsar frá 1892-1895.
Anna Kristjánsdóttir er prófessor emeríta við HÍ og Agder Universitet i Noregi. Hún er afkomandi feðganna og hefur í vor dvalið á Skriðuklaustri við rannsóknir og skriftir.