Framlengja skipunartíma sannleiksnefndar: Hefð fyrir því með íslenskar rannsóknanefndir

sannleiksnefnd fljotsdalur hjorturTil stendur að framlengja skipunartíma Sannleiksnefndar sem ætlað er að fara yfir myndband Hjartar Kjerúlf af Lagarfljótsorminum og meta sönnunargildi þess. Gert er ráð fyrir að sumarið verði notað til að safna frekari gögnum og tilkynna niðurstöðurnar á Ormsteiti.

Nefndin var skipuð sumarið 2012 eftir að erindi barst frá Hirti í ljósi þess að sveitarfélagið hafði um aldamót auglýst peningaverðlaun til þess sem fært gætu sönnur á tilvist ormsins. Milljónir manna um allan heim hafa séð myndband Hjartar af orminum.

Nefndinni var ætlað að fara yfir hvort rétt væri að greiða út verðlaunin. Skipunartími hennar var út yfirstandandi kjörtímabil sveitarstjórnar en í bæjarráði Fljótsdalshéraðs verður á morgun tekið fyrir erindi um framlengdan skipunartíma nefndarinnar, eða til loka Ormsteitis í sumar.

Fern rök eru færð fyrir lengdum skipunartíma.

„Í fyrsta lagi er vísað til þess að á undanförnum árum hefur skapast rík hefð fyrir skipun rannsóknarnefnda hérlendis og undantekningalaust orðið að lengja starfstíma þeirra verulega.

Má því ætla að það myndi draga úr trúverðugleika nefndarstarfsins ef ekki yrði það sama gert fyrir þessa rannsóknarnefnd. Í þessu sambandi er þó rétt að nefna að kostnaður við starf Sannleiksnefndar hefur á engan hátt farið fram úr heimildum.

Í öðru lagi má gera ráð fyrir því að nefndarmenn muni vilja ljúka vinnu sinnu með vettvangsathugunum. Er rétt að gefa þeim kost á því að nýta sumarið til þess.

Í þriðja lagi má búast við því að ef nefndin kynnir niðurstöður sínar í aðdraganda kosninga geti málið orðið pólitískt, enda heitar skoðanir á því víða í samfélaginu. Tilganginn með skipan sérstakrar sannleiksnefndar verður að telja að hafi verið, eins og annarsstaðar þar sem slíkt hefur verið gert, að stuðla að sátt og eindrægni um niðurstöðurnar. Í því skyni er mikilvægt að blanda flokkapólitík ekki í vinnu nefndarinnar.

Að síðustu verður síðan að telja viðeigandi að nýta það tækifæri sem gefst á héraðshátíðinni Ormsteiti, sem eins og nafnið gefur til kynna er haldin að nokkru leyti orminum í Lagarfljóti til heiðurs, til að kynna formlega niðurstöður nefndarinnar með viðeigandi viðhöfn."

Nefndin hefur ekki verið kölluð saman til fundar. Í athugasemd með tillögunum segir að í starfi hennar sé miðað við að hver og einn nefndarmaður sé bundinn af sannfæringu sinni við mat á myndefninu.

„Því hefur ekki verið talið rétt að halda of marga fundi í henni, heldur vinni hver og einn nefndarmaður á eigin vegum að matinu svo ekki komi til þess að skoðanir hvers og eins hafi of mikil áhrif á mat hinna."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar