Armband fyrir starfsfólk á hættulegum vinnustöðum: Mikil rannsóknavinna að baki

lifband hr hopur webAustfirðingurinn Elísabet Erlendsdóttir hefur síðustu vikur unnið að þróun armbands fyrir starfsfólk á hættulegum vinnustöðum sem getur látið vita ef slys ber að hendi. Hún segir mikla þróunar- og rannsóknarvinnu vera þar að baki.

Gert er ráð fyrir að armbandið nemi púls og líkamshita og sé með GPS staðsetningarbúnað þannig að hægt sé að senda boð til stjórnstöðvar. Það er hannað fyrir fólk sem vinnur við hættulegar aðstæður, svo sem í álverum eða á sjó.

„Það er ein í hópnum sem vinnur í álveri. Hún er oft ein að vinna og það eru ekki alltaf til talstöðvar fyrir alla svo hún fór að velta fyrir sér hvað eigi að gera ef eitthvað kemur uppá?" segir Elísabet um tilurð verksins.

„Það er hægt að segja mikið með einföldum upplýsingum, eins og púls og hitastigi. Ef þú verður fyrir áfalli þá rýkur púlsinni upp en getur síðan hægst hratt í kjölfarið."

Armbandið er hluti af verkefni í áfanganum „nýsköpun og stofnun fyrirtækja" í Háskólanum í Reykjavík þar sem Elísabet er í heilbrigðisverkfræði. Sex eru í hópnum sem er samsettur úr nemum úr ýmsum greinum.

Gerð armbandsins er á frumstigi en að baki verkefninu, sem hópurinn þarf að kynna á morgun, er umtalsverð þróunarvinna. „Við höfum skoðað mismunandi íhluti og þætti eins og hvort GPS búnaðurinn virki alls staðar eða hvort aðrir fjarskiptamöguleikar séu betri."

Hluti af vinnunni hefur verið að kanna mögulegan markað. „Við höfum meðal annars rætt við útgerðarfyrirtæki og fengið mjög góð viðbrögð þaðan."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar