Ný námsbraut um nýtingu á staðbundnu hráefni á Austurlandi
Ný námskrá um Listhandverk og hönnun er komin út. Um er að ræða samstarfsverkefni Austurbrúar, Menntaskólans á Egilsstöðum og Listaháskóla Íslands. Meginmarkmið námsins er að leggja grunn að námi í nýtingu á staðbundnu hráefni sem er einkennandi fyrir Austurland.Listhandverk & hönnun er 30 eininga námsbraut á 4. hæfniþrepi viðmiðunarramma aðalnámskrár framhaldsskóla og valkostur sem viðbótarnám við Listnámsbraut Menntaskólans á Egilsstöðum. Námið er lotunám og skipulagt sem þrjár vinnustofur, með áherslu á hugmyndavinnu og hönnunarferli, verklega tækni- og efnisvitund og útfærslu og kynningu nemandans á völdu viðfangsefni. Námið ætti að nýtast þeim vel sem hafa áhuga á að þróa hugmyndir sínar í listhandverki og hönnun, sem vilja endurmennta sig og þeim sem stefna á frekara framhaldsnám í hvers kyns hönnun, listhandverki, nýsköpun og frumkvöðlamennt.
Nemendur fá tækifæri til að gera tilraunir með mismunandi efni og tækni en markmiðið er þó fyrst og fremst að nemendur glími við efnið á skapandi hátt og öðlist um leið færni í meta möguleika efnis, í framleiðsluaðferðum og hönnunarferli með sjálfbærni að leiðarljósi.
Einkum er litið til þriggja hópa væntanlegra nemenda í Listhandverk & hönnun. Í fyrsta lagi nemenda af listnámsbraut ME eða listnámsbrautum annarra skóla, í öðru lagi nemenda af iðn- og verknámsbrautum, sem vilja undirbúa sig fyrir frekara nám í vöruhönnun og listhandverki með nýtingu staðbundinna hráefna í huga og í þriðja lagi handverksmanna og annarra sem vilja endurmennta sig í listhandverki og hönnun. Skipulagið miðar að því að námsefninu sé miðlað með þeim hætti að það nýtist fólki ýmist í áframhaldandi námi eða starfi.
Verkefnisstjóri með gerð námsskrárinnar var Bergþóra Arnórsdóttir, fulltrúi símenntunar hjá Austurbrú en Ólöf Björk Bragadóttir, verkefnisstjóri Listnámsbrautar ME skrifaði námskrána ásamt Láru Vilbergsdóttur, verkefnisstjóra skapandi greina hjá Austurbrú. Listaháskóli Íslands veitti faglega ráðgjöf. Námskráin verður nú send til samþykktar í mennta- og menningarmálaráðuneytið og standa vonir til þess að námið geti hafist á haustönn 2015.
Frá opnum dögum í ME. Mynd: GG