Víkingur Heiðar: Flygillinn á Eskifirði jafn góður og í Hörpu
Píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson lofaði hljóðfærið sem hann fékk í hendurnar á tónleikum sínum í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði á laugardag í hástert og sagði hann jafnast á við það besta sem fyndist á landinu. Yfirskrift tónleikanna var „Önnur hugmynd um Norðrið” til minningar um kanadíska píanóleikarann Glenn Gould.
Rúmlega 50 manns á öllum aldri mættu á tónleikana til að njóta tónlistarinnar. Víkingur Heiðar sýndi listir sínar við flygilinn og spilaði hann Partítur eftir Bach og verk eftir Brahms, Grieg, Sibelius. Tónleikunum lauk hann á lokasenunni úr óperunni Tristan og Ísold eftir Wagner.
Á milli verka voru spilaðar upptökur með Glenn Gould sjálfum, þar var hann m.a. syngjandi, í viðtölum og fleira. Eftir glæsilega tónleika tók hann tvö uppklappslög, Ave Maria og gamalt íslenskt þjóðlag og ekki voru þau síðri en hin.
Víkingur endaði svo á því að lofa flygilinn og sagði það mikinn heiður að fá að spila á hann, hann sagði hann vera einn af þeim bestu á landinu og líkti gæðunum við hljóðfærin í Hörpu.