75 ára afmæli Gunnarshúss á Skriðuklaustri

skriduklausturSunnudaginn 22. júní verður haldið upp á 75 ára afmæli Gunnarshúss á Skriðuklaustri. Afhjúpað verður skilti um bygginguna og opnuð sölubúð í einu herbergi hússins þar sem m.a. verða til sölu minjagripir um húsið. Dagskráin hefst kl. 14 og eru allir velkomnir.

Gunnar Gunnarsson skáld (1889-1975) byggði hið einstaka hús á Skriðuklaustri þegar hann sneri heim eftir rúmlega 30 ára dvöl í Danmörku árið 1939. Draumur hans var að byggja herragarð að evrópskum hætti og stunda stórbúskap í sinni fæðingarsveit, Fljótsdalnum.

Vinur hans, þýski arkitektinn Fritz Höger, teiknaði herragarðinn fyrir Gunnar og hafist var handa við bygginguna vorið 1939. Frá júní og fram í október unnu að jafnaði 20-30 manns á dag að húsbyggingunni og var hún þá nánast fullkláruð.

Samkvæmt vinnudagbók unnu 64 einstaklingar í um 33.000 vinnustundir að húsinu á þessum fáu mánuðum. Gunnar og kona hans Franzisca fluttu inn fyrir jól þá um veturinn.

Gengið var frá torfi á þaki og dregið í milli steina og málað sumarið 1940. Svalir voru hins vegar ekki hlaðnar fyrr en undir lok 8. áratugarins.

Aldrei varð af byggingu útihúsa og vélageymsla í svipuðum stíl eins og teikningar gerður ráð fyrir að kæmu kringum íbúðarhúsið. Því stendur Gunnarshús eitt og sér sem minnisvarði um stórhug Gunnars.

Þau hjónin bjuggu aðeins í níu ár á Skriðuklaustri en gáfu íslensku þjóðinni jörðina og allan húsakost skuldlaust og til ævarandi eignar árið 1948.

Næstu áratugi var rekin tilraunastöð í landbúnaði á staðnum en frá árinu 2000 hefur Gunnarsstofnun stýrt þar menningar- og fræðasetri í minningu Gunnars skálds.

Gunnarshús á Skriðuklaustri er friðað að ytra borði síðan árið 2008.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar