Skógardagurinn mikli 10 ára

skogardagurinn2008Skógardagurinn mikli verður haldinn í tíunda sinn í Hallormsstaðaskógi laugardaginn 21. júní og er dagskráin er margbreytileg að venju. Forleikur að dagskránni hefst raunar í kvöld þegar Landssamtök sauðfjárbænda og sauðfjárbændur á Austurlandi bjóða til veislu í Mörkinni á Hallormsstað. Þar verður grillað lambakjöt og tónlistarfólk skemmtir gestum.

Um hádegi á laugardag hefst svo sjálfur Skógardagurinn mikli með Skógarhlaupinu þar sem hlaupnir verða 14 kílómetrar um skógarstíga. Skráning hefst kl. 11 en ræst verður kl. 12. Einnig er í boði skemmtiskokk, 4 km. hlaup fyrir alla, sem ræst verður kl. 12.15.

Formleg dagskrá hefst síðan klukkan 13 í Mörkinni á Hallormsstað með Íslandsmeistaramótinu í skógarhöggi. Þar er heitasta spurningin hvort hraustir skógarhöggsmenn eystra ná titlinum aftur austur en sigurvegari í fyrra var Örn Arnarson sem keppti fyrir Skógrækt ríkisins á Suðurlandi.

Skógar- og nautabændur bjóða upp á heilgrillað naut og með því, grillaðar verða pylsur en líka soðið ketilkaffi og steiktar lummur að hætti skógarmanna. Af skemmtiatriðum má nefna Héraðsdætur og Liljurnar, Pjakk og Petru og hestaleiguna á Hallormsstað sem sér um að teyma undir börnum svo eitthvað sé nefnt. Síðast en ekki síst mun síðan hin fornfræga hljómsveit Dúkkulísurnar stíga á svið en nú eru 30 ár liðin frá því að sveitin stóð á sviði í Hallormsstaðaskógi síðast.

Skógardagurinn mikli er samvinnuverkefni Skógræktar ríkisins, Héraðs- og Austurlandsskóga, Félags skógarbænda á Austurlandi, Barra gróðrarstöðvar og Skógræktarfélags Austurlands. Aðgangseyrir er enginn og allir velkomnir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar