Tveggja daga hátíðahöld í tilefni af Hernámsdeginum
Hernámsdagurinn hefur fest sig í sessi sem árlegur viðburður á Reyðarfirði, síðasta sunnudaginn í júní. Dagskráin hefur smám saman verið að vinda upp á sig og hefur laugardagurinn einnig verið lagður undir þessa litríku bæjarhátíð undanfarin ár.Hátíðin hefst því á laugardaginn 28. júní á Hernámshlaupi Íslandsbanka. Tvær vegalengdir eru í boði og verður hlaupið af stað kl. 10:30 og 11:00 frá Íslenska stríðsárasafninu. Ekkert skráningargjald er í hlaupinu og eru veglegir vinningar í boði Íslandsbanka.
Hernámshlaup, söngvarakeppni og ball
Á laugardagskvöldið fer svo fram í Félagslundi fyrsta Söngvarakeppni Austurlands. Keppnin er haldin af Tónleikafélagi Reyðarfjarðar í tilefni af Hernámsdeginum og er markmið hennar að styðja ungt hæfileikafólk á Austurlandi, en undirbúningsferlið felur í sér æfingatíma fyrir þátttakendur ásamt aðstoð og gagnlegum leiðbeiningum fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref.
Allur ágóði rennur til Krabbameinsfélags Austurlands. Að keppni lokinni verður skipt um gír og haldinn dansleikur með hljómsveitinni Kraðak.
Tónlist, bíó og leiksýning
Sögugangan er svo á sínum stað ásamt skemmtidagskrá við Íslenska stríðsárasafnið sunnudaginn 29. júní. Þar koma fram Fjarðadætur, norski fiðluleikarinn Hugo Hilde í boði Hrynfarar/Rythmeför og Leikfélag Reyðarfjarðar. Lagt verður af stað frá Molanum á Reyðarfirði kl. 14:00.
Dagskránni við stríðsárasafnið lýkur kl. 16:30 með sýningu Braggabíós á Casablanca, ekta stríðsáramynd með Humphrey Bogart og Ingrid Bergman í aðalhlutverkum. Hernámsdeginum lýkur síðan með setuliðsskemmtun Leikfélags Reyðarfjarðar fyrir alla fjölskylduna um kvöldið í Félagslundi.
Nánar er fjallað um viðburði Hernámsdagsins á fjardabyggd.is og Facebook.