JEA 2014: Þetta er fyrst og fremst tónlistarhátíð

jon hilmar karason 0006 juni14Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi (JEA) verður haldin í 27. sinn um helgina. Hátíðin er nokkuð breytt að þessu sinni þar sem hún verður haldin öll á sama staðnum á einum degi. Eitt hreinræktað jazzband kemur fram á hátíðinni en þar verður töluvert um blús og rokk.

„Okkur fannst breytinga þörf og við teljum að það verði auðveldara að skapa hátíðarstemmingu með þessu fyrirkomulagi. Þarna geta menn komið og séð öll atriðin á einum stað á einum degi en undanfarin ár hafa menn þurft að fara miklar vegalengdir til að sjá öll atriðin," segir Jón Hilmar Kárason, stjórnandi hátíðarinnar.

Talið verður í klukkan 17:00 í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á laugardag og verður það Árni Ísleifsson, guðfaðir hátíðarinnar og norski fiðluleikarinn Hugo Hilde sem fyrstir koma fram.

Á eftir koma austfirsku sveitirnar Dútl, sem Jón Hilmar skipar ásamt Orra Smárasyni og Þorláki Ægi Ágústssyni og svo Georgy&Co sem eru þeir Helgi Georgsson, Jón Knútur Ásmundsson og Jón Hafliði Sigurjónsson.

„Við í Dútlinu höfum dútlað okkur í ár og spiluðum með Kristjönu Stefánsdóttur á Blúshátíð Hornafjarðar. Hinir strákarnir hafa unnið efni í bílskúrnum hjá Helga og koma fram í fyrsta skipti."

Næst mætir jazzbandið Nordic Quartett sem skipað er tveimur Íslendingum, Norðmanni og Svía en sveitin er að fylgja eftir nýútkominni plötu. KK Bandið kemur í kjölfarið.

„Þeir spila ekki reglulega en koma saman þegar tilefnin eru rétt og það er langt síðan þeir hafa verið hér eystra." Þeir eru þekktastir fyrir blús og ekki fjarri þeim er síðasta sveitin, Kaleo úr Mosfellsbæ.

Jón Hilmar lýsir Jazzhátíðinni „fyrst og fremst sem tónlistarhátíð." Á flestum jazzhátíðum séu fleiri tónlistarstefnur í boði og hér sé ein sveit af fimm hreinræktuð jazzsveit. „Þetta er allt saman náskylt. Þeir segja að ef þú getir ekki spilað blús þá getirðu ekki spilað jazz."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar