Halda jól í júlí: Skáru út laufabrauðið í gær
Yfir tuttugu manns mættu í Fjarðarborg á Borgarfirði í gærkvöldi til að skera út laufabrauð og baka piparkökur. Tilefnið er hátíðin „Jól í júlí" sem haldin verður þar á laugardag. Skipuleggjandi segir mikla jólastemmingu hafa skapast við baksturinn.„Þetta er aðallega til að leika okkur og hafa gaman. Við höfum haldið margar hátíðir og að minnsta kosti eina ruglhátíð á ári," segir Óttar Már Kárason, einn af aðstandendum Já Sæll sem er með veitingarekstur í félagsheimilinu.
Áður hafa þeir boðið upp á Bollywood-hátíð og síðan októberfest að hætti Þjóðverja í júní í fyrra. „Það opnaði möguleikana á að halda hátíðir á ekki endilega réttum tíma. Síðan kom þessi hugmynd um að halda jól og vatt upp á sig."
Óttar Már segir að „alvöru jól" verði haldin í Fjarðarborg á laugardagskvöld. Byrjað verði á jólasteikinni og möndlugraut, guðfræðingi flytji jólahugvekju, menn komi með pakka sem settir verði undir tré og fái aðra í staðinn og að lokum verði dansað í kringum jólatréð.
Þá verður tekið frá jólakveðjum frá þeim sem komast ekki á staðinn í eigin persónu. Óttar segir hugmyndina hafa fengið mikla athygli en auglýsing fyrir viðburðinn gekk víða á YouTube.
Laufabrauðsútskurður er á flestum heimilum þáttur í undirbúningi jólanna og í gærkvöldi mættu yfir tuttugu manns til að skera út laufabrauð og baka piparkökur í Fjarðarborg. Það voru ekki bara heimamenn heldur fengu ferðamenn tækifæri til að taka þátt í hinum íslensku jólasiðum.
„Þetta var alvöru jólastemming með jólatónlist og Christmas Vacation í sjónvarpinu," útskýrir Óttar.
Gestir eru hvattir til að mæta í sínum jólafötum, annað hvort sparifötunum eða skrautlegum jólapeysum. Og hann hefur ekki áhyggjur af því þótt það vanti snjóinn.
„Nei, við höfum auglýst okkur sem valkost fyrir fólk sem langar til að fara til Benidorm um jólin en gerir það einhverra hluta vegna ekki. Það getur komið á Borgarfjörð í staðinn."
Veitingamennirnir í Fjarðaborg einbeittir við laufabrauðsútskurðinn. Frá vinstri: Óttar Már Kárason, Helgi Hlynur Ásgrímsson og Kristján Geir Þorsteinsson. Mynd: Eyrún Hrefna Helgadóttir.