Austurglugginn gengur í endurnýjun lífdaga í formi búðarpoka

brynjar darri innkaupapoki webPrufuarkir sem falla til í prentsmiðju og afgangar af gömlum eintökum af Austurglugganum öðlast nú nýtt líf í formi búðarpoka í sölubúð á Skriðuklaustri.

Sölubúðin var opnuð í síðustu viku á 75 ára afmæli hússins með ýmsum varningi tengdum staðnum og Gunnari skáldi. Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, segir hugmyndina að pokanum hafa orðið til þegar leitað var vistvænna lausna í anda umhverfisstefnu stofnunarinnar.

„Endurnýting er eitt af því sem við reynum að vinna mikið með hér á staðnum. Til dæmis voru nýtt gömul gólfborð og fleiri afgangar af byggingarefni til að smíða úr innréttingar í búðina," segir Skúli.

„Stöðugt er reynt að draga úr umbúðanotkun, sérstaklega í plasti og þegar Arna Björg Bjarnadóttir, verkefnisstjóri hjá Gunnarsstofnun, kom með þessa hugmynd um að endurnýta Austurgluggann þótti öllum hún frábær. Það er ánægjulegt að Austurglugginn og Héraðsprent hafi verið til í samstarfið."

Við hverja prentun á blaðinu falla til arkir sem ekki verða að blöðum. Þeim er nú komið upp í Skriðuklaustur þar sem starfsmenn breyta þeim í poka.

„Ein af undirstöðunum í samfélagslegri ábyrgð er að vinna gegn þeim neikvæðu áhrifum sem viðkomandi rekstur hefur á umhverfið. Í prentun og blaðaútgáfu fellur til töluvert af afgangspappír og það er gleðilegt að hægt sé að nota hann áfram," segir Gunnhildur Ingvarsdóttir, stjórnarmaður í Útgáfufélagi Austurlands, sem stendur á bakvið Austurgluggann og annar eigenda Héraðsprents þar sem blaðið er prentað.

„Við erum afar ánægð með það frumkvæði sem kom frá Skriðuklaustri og tókum vitaskuld jákvætt í erindið þegar það barst."

Brynjar Darri Sigurðsson, starfsmaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, með búðarpoka úr Austurglugganum. Mynd: GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar