Rúllandi snjóbolti 5 fer af stað á morgun
![rullandi sjobolti staff](/images/stories/news/2014/rullandi_sjobolti_staff.jpg)
Sýningin er samvinnuverkefni Djúpavogshrepps og CEAC. Þessi kínversk-evrópska menningarmiðstöð er löngu orðin þekkt í kínverska og evrópska listaheiminum og hefur staðið fyrir mörgum, stórum sýningum í Kína. Ísland er fyrsta landið utan Kína þar sem stofnunin stendur fyrir sýningu.
Flestir listamannana sem þátt taka í sýningunni eru alþjóðlegir. Þátttakendur fyrir Íslands hönd eru Erró, Ragna Róbertsdóttir, Rúrí, Ragnar Kjartansson, Hrafnkell Sigurðsson, Þór Vigfússon, Sara Riel, Árni Guðmundsson, Kristján Guðmundsson og Sigurður Guðmundsson.
CEAC er sjálfseignarstofnun og var stofnuð árið 1999 af Ineke Guðmundsson með fjárhagslegum stuðningi eiginmanns hennar, Sigurðar Guðmundssonar. Eitt af markmiðum CEAC er að stuðla að menningarlegum samskiptum milli Kína og Vesturlanda. Stofnunin hefur í gegnum árin kynnt bandaríska, kanadíska, ástralska og íslenska listamenn í Kína.
Djúpavogshreppur er aðili að Cittaslow hreyfingunni sem eru samtök lítilla sveitarfélaga í 27 löndum víðsvegar um heiminn. Markmið Cittaslow er að auka lífsgæði og ánægju fólks með því að veita hnattvæðingu, einsleitni og hraðaáráttu í borgum og bæjum nútímans viðnám og heiðra þess í stað sérstöðu hvers sveitarfélags fyrir sig.
Cittaslow sveitarfélög leggja m.a. áherslu á verndun náttúru og menningarminja, fegrun umhverfis, umhverfisgæði, eflingu staðbundinnar matarmenningar, gestrisni, kurteisi og vinsamlegt viðmót. Það er í þeim anda sem Djúpavogshreppur tekur þátt í sýningunni í samvinnu við CEAC.