LungA-skólinn: Lærum mikið um okkur sjálf en ekki bara hið skapandi ferli
![marie dann lunga web](/images/stories/news/2014/marie_dann_lunga_web.jpg)
„Það er mikilvægt að þekkja sjálfan sig til að geta skapað og við fórum í mikla persónulega skoðun. Aukin þekking á sjálfri mér er það sem ég hef fyrst og fremst fengið út úr mánuðinum," segir Marie Dann, 24 ára Þjóðverji og nemi í hönnunarmiðlun.
Námskeið LungA skólans, sem hefst í haust, voru í vor prufukeyrð á tuttugu manna tilraunahópi. Marie, sem kom á LungA-hátíðina sjálfa í fyrra, kynntist þar hugmyndafræðinni og ákvað að sækja um.
Hún segist ánægð með það hún fékk að prófa í prufumánuðinum. „Hann leið brjálæðislega hratt en virtist samt langur. Eftir fyrstu vikuna leið okkur eins og við hefðum verið hér í hálft ár því við gerðum svo margt.
Mér leið virkilega vel en fann um leið fyrir þreytu því heilinn var alltaf á fullu. Stærsti gallinn sem ég fann var að þetta var of stuttur tími," segir Marie.
Listahátíðin LungA er nú haldin á Seyðisfirði og lýkur með uppskeruhátíð og stórtónleikum á laugardag.