Austurland – suðupottur myndlistar og hönnunar í sumar
![skaftfell roro1 web](/images/stories/news/2014/skaftfell_roro1_web.jpg)
Sýningarnar fjórar eru á Djúpavogi, Egilsstöðum, Eskifirði og Seyðisfirði. Sýningin Rúllandi snjóbolti 5, Djúpivogur er alþjóðlega myndlistarsýningin sem stendur frá 12. júlí til 15. ágúst í Bræðslunni sem breytt hefur verið í sýningarsal.
Alls taka 33 listamenn frá Kína, Evrópu og Íslandi þátt í sýningunni sem er skipulögð af Chinese European Art Center (CEAC) en sýningin er samvinnuverkefni Djúpavogshrepps og CEAC. Þessi kínversk-evrópska menningarmiðstöð er löngu orðin þekkt í kínverska og evrópska listaheiminum og hefur staðið fyrir mörgum, stórum sýningum í Kína. Ísland er fyrsta landið utan Kína þar sem stofnunin stendur fyrir sýningu.
Flestir listamannanna sem þátt taka í sýningunni eru alþjóðlegir. Þátttakendur fyrir Íslands hönd eru Erró, Ragna Róbertsdóttir, Rúrí, Ragnar Kjartansson, Hrafnkell Sigurðsson, Þór Vigfússon, Sara Riel, Árni Guðmundsson, Kristján Guðmundsson og Sigurður Guðmundsson.
Sumarsýning Sláturhússins á Egilsstöðum VaXandi/Designs from nowhere stendur til 15. ágúst. SAM félagið grasrótarsamtök skapandi fólks á Austurlandi stendur fyrir sýningunni og að þessu sinni er útgangspunkturinn hönnun og listhandverk með vísan í menningu svæðisins og staðbundin hráefni.
Sýningin er tvíþætt og sýnir annarsvegar afrakstur úr hönnunarverkefninu Design from Nowhere sem fram fór á Austurlandi 2013 – 2014 og hinsvegar samsýningu félaga í SAM félaginu. Samtökin eru ört vaxandi afl á Austurlandi og vinna í alþjóðlegu samstarfi um að tengja saman ólíka þekkingu og reynslu sem leitt getur til nýsköpunar á sviði skapandi greina.
Sjólag er sýning á verkum Finnboga Péturssonar í Dahlshúsi á Eskifirði og stendur sýningin yfir frá 19. júlí til 3. ágúst. Dahlshús er norskt sjóhús sem stendur við Strandgötu, það var byggt árið 1880 og endurbyggt árið 2013. Í Dahlshúsi verða sýningar á samtímalist á sumrin fram til ársins 2018. Sjólag er önnur sýningin í húsinu.
Finnbogi er hljóðlistamaður sem skapar hugmyndalist, tónlist, vídeólist, flúxuslist, innsetningar- og umhverfislist. Hann býr til listaverk úr hljóði og myndar skúlptúra út frá því.
Sumarsýning Skaftfells á Seyðisfirði ber heitið RÓ RÓ. Þar er stefnt saman 30 myndlistarmönnum sem eiga það sameiginlegt að vera í virkum tengslum við Seyðisfjörð. Sumir búa á staðnum, aðrir eiga húsnæði þar eða koma reglulega í fjörðinn. Til sýnis eru ný eða nýleg verk sem flest eru unnin á svæðinu eða bera vísun í staðin.
Sýningin er staðsett í sýningarsal Skaftfells, utandyra og í rýmum víðsvegar um bæinn. Ýmsir viðburðir tengdir sýningunni munu eiga sér stað yfir sumarið en sýningin stendur til 5. október.
Menningarsvið Austurbrúar styrkir með einum eða öðrum hætti allar þessar sýningar.
Frá sumarsýningu Skaftfells. Mynd: Tinna Guðmundsdóttir