Messað í Loðmundarfirði á sunnudag
Árleg sumarmessa í Klyppsstaðarkirkju í Loðmundarfirði verður á sunnudag þar sem prestarnir sr. Jóhanna I. Sigmarsdóttir og sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir úr Egilsstaðaprestakalli þjóna.Kirkjan var reist 1895, en prestur sat á staðnum til 1888. Eftir það var staðnum þjónað frá Dvergasteini og síðar Seyðisfirði.
Fyrri hluta 20. aldar var nokkuð blómleg byggð í Loðmundarfirði. Um aldamótin 1900 voru íbúar 87.
Bæirnir voru tíu en um miðja 20. öldina komst los á byggðina, þannig að 5 jarðir fóru í eyði á árunum 1940-1965. Stærstu jarðirnar, Stakkahlíð og Sævarendi voru lengst í byggð, hin síðarnefnda til 1973.
Til Loðmundarfjarðar er jeppavegur frá Borgarfirði og tekur ferðin þangað rúma klukkustund. Kirkjan er friðað hús og hefur ekki verið afhelguð.
Messan á Klyppsstað hefur jafnan verið vel sótt af ferðafólki og úr nágrannabyggðum. Kirkjugestum verður boðið í kaffi í skála Ferðafélagsins eftir messu.