Tvö austfirsk ungmenni hlutu námsstyrki frá Samfélagssjóði Alcoa
Rebekka Karlsdóttir og Marteinn Gauti Kárason, nemar við Menntaskólann á Egilsstöðum, hlutu nýverið námsstyrki úr Samfélagssjóði Alcoa.Rebekka fer í Yosemite-þjóðgarðinn í Kaliforníu í tæpar tvær vikur í ágúst. Styrkurinn sem hún fékk stendur 16-18 ára unglingum af starfssvæði Alcoa til boða og var auglýst eftir unglingi sem hrifinn væri af náttúru og vísindum.
Samfélagssjóðurinn styrkir alls 24 nemendur til að ferðast til þjóðgarðsins og verja þar 10 dögum í gönguferðir, fræðslu og skemmtun.
Marteinn Gauti fékk hins vegar styrk sem nefnist „Synir og dætur" en hann er til barna starfsmanna Alcoa sem eru að hefja háskólanám. Styrkurinn hefur verið veittur í Bandaríkjunum frá árinu 1954 en var nú í fyrsta sinn boðinn í önnur lönd.
Valdir voru 75 styrkþegar eftir námsárangri, leiðtogahæfni, manngerð, vinnusögu, samfélagsþjónustu og ritgerð sem þurfti að senda með umsókninni.
Marteinn Gauti Kárason sem útskrifaðist af viðskipta- og hagfræðibraut ME í vor fékk styrkinn og stefnir á nám í HR eða HÍ.
Þess má geta að þau koma bæði úr Eiðaþinghá, Marteinn Gauti frá Uppsölum en Rebekka frá Þrepi.