Grísalappalísa, DJ flugvél og Geimskip á ferð um Austurland

grisalappalisa webHljómsveitin Grísalappalísa og DJ Flugvél og Geimflaug eru þessa dagana á ferð um Austfirði. Fyrstu tónleikarnir verða í Miklagarði í Vopnafirði í kvöld.

Grísalappalísa er með glænýja plötu í farteskinu sem ber nafnið „Rökrétt framhald" og hefur nú þegar fengið góðar viðtökur frá helstu tónlistarspekúlöntum landsins.

Hljómsveitin hefur einnig vakið athygli fyrir framúrskarandi tónlistarflutning á sviði og hlaut verðlaun sem besta tónleikasveit ársins 2013 að mati Reykjavík Grapevine.

Í tilefni verðlaunanna var Grísalappalísu boðið að stíga á stokk með átrúnaðargoði sínu Megasi en samstarf hans og sveitarinnar er langt frá því á enda!

Með sveitinni í för er Steinunn Eldflaug Harðardóttir, betur þekkt sem Dj Flugvél og Geimskip. Hún gaf út plötuna Glamúr í Geimnum í fyrra sem er uppfull af geggjuðum töktum, flottum bassa og fallegum sögum úr framandi heimi.

Dagskráin er lífleg kvöldskemmtun uppfull af hressilegu rokki og frumlegum yrkisefnum á íslenskri tungu.

Spilað verður í Miklagarði á Vopnafirði í kvöld, á Gömlu símstöðinni á Egilsstöðum annað kvöld og í Heima á Seyðisfirði á föstudagskvöld.

Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar