Röð út á götu eftir miðum í Fjarðarborg í dag
Biðröð var út á götu við félagsheimilið Fjarðarborg á Borgarfirði eystri í dag þegar seldir voru miðar á forleik Bræðslunnar í kvöld.Í kvöld spilar þar stórhljómsveit Fjarðarborgar sem eru Jónas Sigurðsson, Mugison og Ómar Guðjónsson úr Dröngum, Arnar Gíslason og Guðni Finnsson úr Pollapönki og Pétur Ben.
Þeir spila tvisvar, fyrri tónleikarnir hófust klukkan 19:30 en þeir seinni klukkan 22:30. Röð myndaðist út á götu við Fjarðarborg þegar miðar voru seldir á tónleikana í dag. Uppselt var á seinni tónleikana á kortéri en á klukkutíma á þá fyrri.
Tíðindamaður Austurfréttar á Borgarfirði segir stemminguna í bænum frábæra. Sungið hafi verið og trallað fram undir morgun undir berum himni eftir tónleika gærkvöldsins
Tjaldsvæðin eru að fyllast og víða tjaldað í görðum.
Á morgun verða útitónleikar fyrir alla með Pollapönki klukkan 16:00 en Bræðslan sjálf hefst 22:30. Þar koma fram Borgfjörð, Mammút, Drangar, Sú Ellen og Emilíana Torrini.
Mynd: Birkir Björnsson